Mikið um að vera í Eyjafjarðarsveit næstu daga
Það verður mikið um að vera í Eyjafjarðarsveit næstu daga. Á morgun föstudaginn 7. obtóber kl. 20.00 verður haustverkefni Freyvangsleikhússins frumsýnt. Að þessu sinni er um að ræða einþáttungahátíð þar sem 9 stuttverk eftir 8 höfunda verða frumflutt. Stefnt er að því að sýna út október. Þá verða stóðréttir á Melgerðismelum á laugardag og verður stóðið rekið í réttina kl. 13.00.
Eftir hrossaréttina verður sölusýning unghrossa í Melaskjóli, eða um kl. 15.30. Á laugardagskvöld verður Stóðréttardansleikur í Funaborg, þar sem Stórsveit Jakobs Jónssonar Skriðjökuls, leikur fyrir dansi fram á nótt. Gestasöngvari er Stefán Tryggvi og eru allir velkomnir á ekta sveitaball af eyfirskum sið. Húsið opnar kl. 22.00. Sunnudaginn 9. október kl. 14.00 stígur Kristján Jóhannsson á svið Laugarborgar og syngur mörg af þekktustu íslensku sönglögunum. Söngskemmtunin er á vegum Tónvinafélags Laugarborgar og marka þeir upphaf söfnunarátaks til kaupa á Steinway & Sons flygli í Laugarborg. Flygilinn hefur nú þegar staðið á sviði Laugarborgar um nokkurt skeið og hefur gripurinn fengið góðar umsagnir þeirra sem á hann hafa leikið fram að þessu, jafnvel talað um að hann sé mun betri en sá sem áður var í Laugarborg. Söngskemmtunin verður með hefðbundnu sniði kaffitónleika sem tíðkuðust í Laugarborg í upphafi og enda starfsárs, meðan betur áraði til tónleikahalds. Kvenfélagið Iðunn mun reiða fram sitt margrómaða sunnudagskaffi að söngnum loknum. Á píanóið leikur Þórarinn Stefánsson. Framlag allra sem að söngskemmtuninni standa er án endurgjalds.
Mánudagskvöldið 10. október verður hin árlega hrútasýning Fjárræktarfélags Öngulsstaðarhrepps haldin í fjárhúsunum á Svertingsstöðum 2 og hefst hún stundvíslega kl. 20:00. Sýndir verða bæði lambhrútar og veturgamlir hrútar og eru vegleg verðlaun í boði í báðum flokkum. Þeir sem ætla að koma með lambhrúta á sýninguna skulu hafa dómana á hrútunum meðferðis en þeir hrútar sem eru ódæmdir verða dæmdir á staðnum. Einungis má koma með hrúta af stafssvæði fjárræktarfélgs Öngulsstarhrepps. Allir eru velkomnir og kaffiveitingar í boði.
Loks má geta þess að Samtök ungra bænda kynna ljósmyndasamkeppni í tengslum við útgáfu samtakanna á dagatali fyrir árið 2012. Keppnin er öllum opin og óskað er eftir myndum tengdum ungu fólki og úr öllum áttum landbúnaðar. Myndirnar eiga að vera u.þ.b. 300 dpi að stærð og sendast á netfangið ungurbondi@gmail.com. Skilafrestur er til 1. nóvember.