Mikið kosið utan kjörfundar

Fulltrúar sýslumanns koma með kjörkassa með utankjörfundaratkvæðum í Verkmenntaskólann á Akureyri. Þ…
Fulltrúar sýslumanns koma með kjörkassa með utankjörfundaratkvæðum í Verkmenntaskólann á Akureyri. Þar eru þeir geymdir þar til talning hefst annað kvöld. Óvenjugóð þátttaka hefur verið í kosningu utan kjörfundar. Mynd MÞÞ

Mun fleiri hafa kosið utan kjörfundar en fyrir síðustu alþingiskosningar. Á landinu öllu höfðu tæplega 45 þúsund manns kosið utan kjörfundar, en voru 38 þúsund fyrir síðustu kosningar.

Búist hafði verið við því að kjörsókn yrði meiri en áður vegna kórónuveirufaraldurs. Um hádegi í dag höfðu um 20% kosningabærra manna á Norðurlandi eystra kosið utan kjörfundar að því er haft er eftir  Svavari Pálssyni sýslumanni á Norðurlandi eystra í fréttum RÚV. Er það mesta kjörsókn utan kjörfundar sem áður hefur sést.

Á Akureyri er kosið utankjörfundar á Glerártorgi, gengið inn að austan og er það í fyrsta sinn sem boðið er upp á þann kjörstað.  Opið verður á morgun, kjördag frá kl. 10 til 18.

Kjörfundur hefst kl. 9 í fyrramálið í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar eru 10 kjördeildir. Kosningu lýkur kl. 22 og fer talning fram í Brekkuskóla. Kjördeildir eru einnig í Hrísey og Grímsey.


Athugasemdir

Nýjast