Miðstjórn ASÍ fundaði á Húsavík

Miðstjórn ASÍ fékk m.a. að skoða framkvæmdasvæðin í tengslum við uppbygginguna á Bakka. Mynd: Framsý…
Miðstjórn ASÍ fékk m.a. að skoða framkvæmdasvæðin í tengslum við uppbygginguna á Bakka. Mynd: Framsýn

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fundaði í gær 18. maí  í húsnæði stéttarfélaganna á Húsavík. Rætt var m.a. um stöðu frumvarps um almennar íbúðir á Alþingi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Framsýnar.

„Málið er mikið hagsmunamál fyrir allt launafólk, þar sem ásættanleg löggjöf um það efni er forsenda fyrir því að hægt verði að ráðast í stórátak bygginga leiguíbúða á ásættanlegu verði,“ segir í tilkynningunni.

 Þá var fjallað um ríkisfjármálaáætlun 2017 – 2021 sem fjármálaráðherra kynnti nýlega. „Á fundinum var áætlunin gagnrýnd harðlega, enda ljóst að hún gengur í veigamiklum atriðum gegn hagsmunum almenns launafólks og markmiðum um öflugt velferðarkerfi og aukin jöfnuð í samfélaginu“.

Staðan á vinnumarkaði skapaði talsverða umræðu á fundinum og komu fram áhyggjur og hörð gagnrýni um vaxandi tilraunir atvinnurekenda til að koma sér undan skyldum sínum með ráðningu sjálfboðaliða. Þá sér í lagi í landbúnaði og ferðatengdri þjónustu.

Aðalsteinn Baldursson gerði miðstjórnarmönnum grein fyrir stöðu atvinnumála í Þingeyjasýslum. Hann gaf góða yfirsýn yfir framkvæmdirnar sem nú eru í gangi og áhrif þeirra í bráð og lengd. Fulltrúar LNS Sögu á Þeistareykjum og við gangnaframkvæmdirnar gerðu frekari grein fyrir þeim verkefnum í skoðunarferð sem miðstjórnarmönnum var boðið í um framkvæmdasvæðin. /epe.

Nýjast