Miðnæturböð á Laugum

Þann 1. September síðastliðinn, á nýju tungli, opnaði fyrirtækið North Aurora Exclusive Baths miðnæturböð á Laugum í Reykjadal. Fyrirtækið hefur hingað til ekki síst gert út á norðurljósaböð í sundlauginni á Laugum.

Frá og með 1. september verður opið öll kvöld frá 22 til 01. Bryndís Pétursdóttir er hugmyndafræðingur og frumkvöðull þessa verkefnis, en Jón Friðrik Benónýsson er umsjónarmaður miðnæturbaðanna á Laugum.

En það er fleira í boði en tveir heitir 40°C pottar, sundlaug, kvöldhiminn og kyrrðin í sveitinni, ásamt oft stjörnum og norðurljósum. Öll ljós eru slökkt og einungis er notast við kerti og útilugtir til að ná sem bestri slökun og upplifun. Allir gestir fá aðgang að böðunum sem og flotvörum frá Float.is og teppi, lífræna bómullarsloppa (Scintilla), lífrænt kaffi, te og súkkulaði. Allir starfsmenn eru með sundpróf og skyndihjálparpróf, eru íslenskir og tala íslensku, ensku, dönsku og sænsku.

Að sögn Jóns Friðriks eru böðin ekki síst markaðssett fyrir ferðamenn, bæði innlenda og erlenda, en einnig er þetta upplögð upplifun fyrir minni og stærri vina- og vinnustaðahópa til að, „fljóta saman og eiga notalega stund,“ eins og Jón orðar það.

Einungis 40 manns fara ofan í í einu þannig að gestir geta notið þess að hafa nóg pláss og vera út af fyrir sig. „Við mælum með því að hópar panti fyrirfram í böðin, svo hægt sé að verða við óskum viðkomandi og uppfylla þær.”

Þau Bryndís og Jón standa ekki ein í þessi verkefni. „Við erum í samstarfi við hópinn Nærandi á Laugum, sem er hópur nuddara, snyrtifræðinga, hjúkrunarfræðinga og íþróttakennara sem búa hér á staðnum. Og einnig hægt að opna keramikverkstæðið í Listasmiðjunni á Laugum fyrir einstaklinga og minni hópa, þar sem gestir geta búið til sinn eigin norðurljósabolla til minningar um heimsóknina og fá síðan sendan heim eftir brennslu.” Sagði Jón Friðrik Benónýsson. 

Nýjast