Andrea Waage rekstrarstjóri á Akureyri, segist ekki ætla að gefast upp, heldur reyna allt sem í hennar valdi stendur til að fjölga verkefnum, þannig að hægt verði að halda starfseminni gangandi. Að öðrum kosti verði starfsstöðinni á Akureyri lokað og þau verkefni sem eru í gangi flutt suður. Miðlun hóf starfsemi á Akureyri í mars 2006, þegar innhringiver fyrirtækisins var flutt norður og þá hefur verið starfrækt úthringiver bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Andrea segir að verkefnastaðan hafi verið góð fram í september og í þeim mánuði hafi starfsfólki m.a. verið fjölgað. "Þetta hrundi svo allt þann 6. október sl. og við misstum stóra viðskiptavini, með þeim afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir nú. Við höfum lagt mikið á okkur við byggja hér upp öfluga starfsemi og þessi staða er því gríðarlega svekkjandi. Ég hef þó ekki gefist upp og ætla að nýta næstu daga og vikur til að reyna að fá verkefni hingað inn," sagði Andrea.
Árni Zophaníasson framkvæmdastjóri Miðlunar sagði að um væri að ræða viðbrögð við þeirri stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu. Við höfðum byggt upp sérlega góða rekstrareiningu á Akureyri, með hreint frábæru starfsfólki og þessi niðurstaða er því þeim mun erfiðari," sagði Árni.
Miðlun er þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptatengsla og aðstoðar viðskiptavini sína með því að sinna símsvörun, hringja í viðskiptavini og almenning, gera skoðanakannanir og hafa milligöngu um viðskipti fyrirtækja og neytenda.