Miði er möguleiki!

María Dís Ólafsdóttir
María Dís Ólafsdóttir

Á heimasíðu Verkmenntaskólans á Akureyri má finna viðtal sem Óskar Þór Halldórsson tók við Maríu Dís Ólafsdóttur sem stundaði nám við VMA en hún hlaut  í  maí 2022  fyrstu verðlaun (500 þúsund krónur) í nýsköpunarkeppninni Norðansprotanum. Hugmynd Maríu  kallar hún  Roðleður og  gengur hugmyndin út á þróun og framleiðslu á leðri úr fiskroði.

Viðtal Óskars við Maríu fer hér á eftir.

,,Það er í mörg horn að líta hjá Maríu Dís Ólafsdóttur. Á síðasta ári stofnaði hún og sambýlismaður hennar, Leonard Jóhannsson, fyrirtækið AMC og þessa dagana er hún að hefja vinnu af fullum krafti við verkefnið Nanna Lín sem í síðasta mánuði fékk 20 milljóna króna sprotastyrk frá Rannís til tveggja ára.

María Dís lauk stúdentsprófi frá VMA árið 2014 – var þá ári yngri en flestir samstúdentar hennar því hún stytti sér leið í grunnskólanum sínum í Öxarfirði og sleppti þar áttunda bekknum. Í september 2013 var hún í viðtali við Morgunblaðið, enda þótti það saga til næsta bæjar að hún ætlaði að ljúka stúdentsprófi í VMA af þremur brautum, félagsfræðibraut, hagfræðibraut og náttúruvísindabraut, með samtals um 170 einingar. Í desember 2013 var María Dís einnig í viðtali hér á heimasíðu VMA auk þriggja annarra nemenda sem áttu það sameiginlegt að ætla að ljúka stúdentsprófi nítján ára en ekki tvítug, eins og algengast var á þessum tíma. Þetta var á þeim tíma sem flestir nemendur luku stúdentsprófi á fjórum árum en ekki þremur eins og nú er algengast.

Að stúdentsprófi loknu árið 2014 lá leið Maríu til Perú og hún vann einnig um tíma í Noregi. Haustið 2015 hóf hún nám í auðlindalíftækni í Háskólanum á Akureyri og lauk BS-prófi árið 2018. Um tíma var hún í skiptinámi í Tromsö í Norður-Noregi. Haustið 2018 tók við nýtt ævintýri þegar María skellti sér í grunnskólakennslu í Grímsey. Þetta var síðasti veturinn sem kennt var í eynni vegna fárra nemenda. Með kennslunni í Grímsey stundaði María fjarnám í viðskiptafræði við HA. Haustið 2019 lá leiðin til Reykjavíkur þar sem María stundaði næstu tvö árin nám í lífverkfræði. Að því loknu árið 2021 starfaði hún að hinum ýmsu verkefnum í verktöku en það var síðan snemma árs 2022 sem hún stofnaði með Leonard sambýlismanni sínum, sem er vélfræðingur og vélstjóri, fyrirtækið AMC.

Í maí 2022 var tilkynnt að María hefði unnið fyrstu verðlaun (500 þúsund krónur) í nýsköpunarkeppninni Norðansprotanum. Hugmynd sína kallaði María Roðleður en hún gengur út á þróun og framleiðslu á leðri úr fiskroði og er horft til framleiðslu á leðri í efnisströngum til þess m.a. að bólstra sæti í samgöngutækjum eins og bílum og lestum. Þessi hugmynd Maríu hefur áfram fengið vængi því sl. sumar fékk AMC 2 milljóna króna svokallaðan FRÆ-styrk frá Rannís til þess að halda áfram með hugmyndina og í desember sl. var tilkynnt að verkefnið hefði hlotið 20 milljóna króna sprotastyrk frá Rannís til næstu tveggja ára.

Auk þess að vinna að þessu viðamikla og áhugaverða verkefni er María með ýmis önnur járn í eldinum, t.d. hefur hún undanfarin fjögur ár unnið að fjölbreyttum verkefnum hjá Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri og svo verður áfram. Meðal annars er um að ræða fyrirlestrahald fyrir erlenda ferðahópa.

En stóra verkefni Maríu á næstu mánuðum verður að halda áfram og þróa hugmyndina um leður úr fiskroði. Hún segist ekki ætla að fara í samkeppni um fiskroð við þá aðila sem þegar eru að vinna leður úr fiskroði, hugmynd hennar sé af öðrum toga og hún horfi ekki síður til þess að nýta roð af þeim fisktegundum sem til þessa hafi ekki verið nýtt. Það sé hennar áhersla í verkefninu, að búa til verðmæti úr ónýttu hráefni.

„Ég efast um að það takist á tveimur árum að þróa tilbúna vöru, mun líklegra er að til þess þurfi 4-5 ár. En þessi 20 milljónka króna styrkur frá Rannís er mjög mikilvægur því hann gerir okkur kleift að fara af fullum krafti í þessa þróunarvinnu. Við horfum til þess að brjóta fiskroðið niður, endurmóta það og súta það síðan. Afurðin verði staðleður, textílefni sem kæmi í stað leðurs. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið reynt áður og því get ég lítið gúglað á netinu og safnað þannig upplýsingum,“ segir María Dís.

En hvaðan kemur nafnið á verkefninu – Nanna Lín? Úr goðafræðinni, segir María Dís, nánar tiltekið úr Gylfaginningu en þar segir frá því er Nanna, gyðja hafsins, gefur Frigg, tengdamóður sinni rifti, sem er léreft af fínustu gerð. Svo segir í Gylfaginningu: Þá stóð Hermóður upp, en Baldur leiðir hann út úr höllinni og tók hringinn Draupni og sendi Óðni til minja, en Nanna sendi Frigg rifti og enn fleiri gjafir.

María Dís segir að þegar hún horfi til baka til þess dags er hún lauk stúdentsprófi frá VMA hefði hún aldrei getað látið sér detta í hug að níu árum síðar væri hún á fullu í að vinna að spennandi nýsköpunarverkefni.

„Hugmyndin um eigið fyrirtæki var mér mjög fjarlæg og framandi og sannast sagna hefði mér ekki dottið stofnun fyrirtækis til hugar fyrir einu ári síðan. En svona gerast hlutirnir og maður verður bara að prófa, maður hefur engu að tapa. Miði er alltaf möguleiki og stundum þarf að henda sér út í djúpu laugina,“ segir María Dís Ólafsdóttir“.

 


Athugasemdir

Nýjast