Metumferð um Héðinsfjarðargöng

Um síðustu helgi fóru 887 bílar að meðaltali á dag um Héðinsfjarðargöng, frá föstudegi til sunnudags, samkvæmt upplýsingum frá Friðleifi Inga Brynjarssyni verkefnastjóra hjá umferðardeild Vegagerðarinnar á Akureyri. Þetta er meira en fyrra helgarmet sem er síðan um páska, 864 bílar á dag.  

Í fyrradag, sunnudaginn 3. júlí, fóru 987 bílar um Héðinsfjarðargöng, sem er heldur minna en á laugardaginn um páskana þegar 1010 bílar fóru um gönginn. Það er met frá því mælingar hófust um miðjan október 2010, nokkru eftir að göngin voru vígð. Umferðin í júní var mjög mikil. Fyrstu helgina voru bílarnir 765 á dag, aðra helgina 647, þriðju helgina 714 og fjórðu helgina 735. Fyrri hluta ársins var meðalumferðin 470 bílar á dag sem er þriðjungi meira en Vegagerðin áætlaði þegar ráðist var í gerð Héðinsfjarðarganga.

Það verður fróðlegt að fylgjast með umferðarteljaranum í Héðinsfirði næstu daga og vikur. Þjóðlagahátíðin hefst á morgun miðvikudag, Síldarævintýrið verður í lok mánaðarins og Pæjumótið í ágúst. Einnig má búast við að margir þeirra sem taka þátt í Nikulásarmótinu í Ólafsfirði um miðjan júlí leggi leið sína til Siglufjarðar svo og þátttakendur í Fiskideginum mikla á Dalvík í ágúst. Þetta kemur fram á vefnum siglfirdingur.is.

Nýjast