Mettþátttaka á landsþingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Akureyri

Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður haldið á Akureyri á morgun föstudag og á laugardag. Metþátttaka er á þinginu að þessu sinni en alls mæta tæplega 500 félagar úr slysavarnadeildum og björgunarsveitum víðs vegar af landinu til Akureyrar. "Eigum við ekki að segja að Akureyri trekki svona vel," sagði Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsinga- og kynningarfulltrúi LS um þessa miklu þátttöku.  

Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar er haldið annað hvert ár og sagði Ólöf að venjulega hafi um 250 manns mætt til leiks. Þingið verður sett í Íþróttahöllinni kl. 14.00 á morgun og stendur til kl. 18.00. Annað kvöld verður sveitaball með þemanu ,,Gamalt íslenskt"  í Hlíðarbæ frá kl. 20:00-23:00.  Ólöf segir að um 170 manns hafi jafnan tekið þátt í þessum dagskrárlið en alls hafa um 500 manns skráð sig á sveitaballið í Hlíðarbæ og yfir 600 manns á árshátíðina á laugardagskvöld. Samhliða landsþinginu verða haldir Björgunarleikar LS á laugardagsmorgun og fram eftir degi og segir Ólöf að óvenju góð þátttaka sé í leikunum að þessi sinni, eða 18-20 lið. Markmið björgunarleikana eru; skemmtun, reynsla og lærdómur.

Nýjast