Hvernig bæjarfélagi viljum við búa í? Ég var spurður að því hvort ég sem sveitarstjórnarmaður legði ekki of mikla áherslu á atvinnumál og samgöngumál, en léti mér velferðamálin í léttu rúmi liggja. Það er öðru nær.
Við erum flest sammála um að á Akureyri eigi að vera samfélag velferðar og umhyggju og félagsþjónusta bæjarins eigi áfram að vera tryggð. Enginn á að fara á mis við umönnun í veikindum af fjárhagslegum ástæðum. Sama gildir um umönnun eldri borgara. Allir eiga að geta treyst því að hafa einhvers staðar höfði sínu að að halla. Þessi manngildissjónarmið eiga sér djúpar rætur í sjálfstæðisstefnunni, frá öndverðu hefur Sjálfstæðisflokkurinn strengt félagslegt öryggisnet til að grípa þá sem ekki hafa haft möguleika á að tryggja velferð sína af eigin rammleik. Með skynsemi og ráðdeild er vitaskuld hægt að tryggja að þessi háleitu markmið nái fram að ganga í öflugu bæjarfélagi eins og Akureyri. Lítum nánar á.
Mannhelgi
Sveitarstjórnarmál þurfa að byggja á þjóðmálastefnu sem sækir í íslenska þjóðfélagshætti og íslenskan veruleika. Hér þarf að byggja á þekkingu og staðreyndum en ekki óljósum og óraunhæfum hugmyndum og óskhyggju um sæluríki án fyrirhafnar. Menn njóti hins vegar hæfileika sinna og framtakssemi og bæjarstjórnin verður að starfa í þeim anda að uppbygging atvinnu sé undirstaða velferðar. Mannhelgi, frelsi og sjálfstæði einstaklingsins á sannarlega við í uppbyggingu velferðaþjónustunnar í okkar öfluga bæjarfélagi. Um þetta mætti hafa mörg orð. Ég nefni hér sérstaklega tvö verkefni af mörgum.
Metnaður í öldrunarmálum
Það er réttlætismál sem við eigum að leggja metnað okkar í, að búa vel að öldruðum. Það er mikilvægt að gera fólki kleift að búa heima eins lengi og kostur er og tryggja grunnþjónustu heim. Hvort sem það er aðstoð við eigin umsjá, aðstoð við heimilishald eða félagslegur stuðningur.
Um leið þarf að standa vörð um starfsemi öldrunarheimila fyrir þá sem á þurfa að halda. Frelsi einstaklingins til að ráða sínum málum sjálfur, afla sér tekna og verja að vild á ekki að ljúka þegar lífeyrisaldri er náð. Aldraðir eiga að njóta efri áranna með reisn. Aldraðir eiga að hafa raunverulegt val um hvernig þeir haga lífi sínu, hvort sem það felst í að búa á dvalarheimili eða í eigin húsnæði, stunda vinnu eða ekki. Með hækkandi lífaldri verður þetta sífellt mikilvægari málaflokkur sem marka verður stefnu um.
Fjölbreytt starfsmenntun og endurhæfingu
Að sama skapi ætti metnaður okkar að liggja í að tryggja þeim er hafa skerta starfsorku eða hafa tímabundið horfið af vinnumarkaði, aðgang að fjölbreyttri starfsmenntun og endurhæfingu. Sérstaklega þarfa að líta til ungs fólks í þessu samhengi.
Bærinn okkar, Akureyri, hefur um margt verið í forystu varðandi þjónustu við fólk sem á við fötlun að stríða. Þar eigum við þó enn margt óunnið og eigum því að kappkosta að mæta þörfum fatlaðra eins og frekast er unnt. Þetta er stefna sem við eigum að einsetja okkur að hrinda í framkvæmd, við viljum og við getum!
Með bjartsýni að vopni
Þeir sem mig þekkja vita að ég er mjög bjartsýnn á framtíð Akureyrar. Við getum áfram sinnt víðfeðmu hlutverk sveitarstjórnarmála í velferðar og fjölskyldumálum. En það verður einungis gert ef við styrkjum sjálfa undirstöðuna. Ef við viljum vera í fremstu röð í samfélagi velferðarþjóða þarf að knýja á ný aflvélar athafnalífsins. Þær eru undirstaða aukinna lífsgæða, meira öryggis og velferðar.
Fái ég umboð til að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs á Akureyri, mun ég halda áfram að vinna að uppbyggingu bæjarins fyrir alla Akureyringa. Ég hef metnað til góðra verka.
Njáll Trausti Friðbertsson.
Njáll Trausti er varabæjarfulltrúi á Akureyri og í framboði í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri sem fer fram fer fram 8. febrúar nk.