Metaðsókn í nám í sjávarútvegsfræðum við HA
Fjörutíu nýjar umsóknir bárust Háskólanum á Akureyri um nám í sjávarútvegsfræðum næsta haust og hafa umsóknir aldrei verið fleiri. Á síðustu árum hefur nám í sjávarútvegsfræðum við HA átt undir högg að sækja, líkt og margt annað nám í landinu er tengist sjávarútvegi og raunvísindum.
Ástæður fækkunar nemenda geta verið fjölmargar, svo sem að núverandi samsetning sjávarútvegsfræðináms höfði ekki til ungs fólks auk þess sem líklegt er að fremur neikvæð umræða um sjávarútveg fæli nemendur frá. Þegar innritunartölur haustið 2007 lágu fyrir var þó orðið ljóst að þrír mjög fámennir árgangar í röð voru staðreynd og því erfitt að viðhalda óbreyttu kennslufyrirkomulagi í sjávarútvegsfræðum með hliðsjón af forsendum fjárveitinga. Ljóst var því að róttækra aðgerða væri þörf.
Landssamband íslenskra útvegsmanna og menntamálaráðuneytið ákváðu að styrkja með myndarlegu fjárframlagi endurskoðun á náminu og renna um leið stoðum undir forystuhlutverk HA á sviði menntunar og rannsókna tengdum sjávarútvegi. Hreinar Þór Valtýsson lektor í sjávarútvegsfræðum við HA segir afar ánægjulegt að sjá slíka fjölgun á umsóknum og því sé framtíð námsins björt. Hann segir að skýrsla um endurskoðun á náminu verði væntanlega kynnt á næstunni. Í henni komi glögglega fram mikilvægi þess að hér landi sé í boði nám í sjávarútvegsfræðum, enda mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga.