Met nýting á hótelum í súginn

Mörgum gramdist að sjá mannlausar brekkurnar í Hlíðarfjalli yfir páskahátíðina á meðan þjóðhátíðarst…
Mörgum gramdist að sjá mannlausar brekkurnar í Hlíðarfjalli yfir páskahátíðina á meðan þjóðhátíðarstemmning ríkti á gossvæðunum.

Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður Akureyrarstofu, segir það hafa verið sárgrætilegt að geta ekki tekið á móti gestum eins og til stóð um páskana á Akureyri. Von var á fjölda manns norður yfir hátíðina en vegna sóttvarnaraðgerða breyttust plönin hjá allflestum.

„Það stefndi í stærstu páska hér á Akureyri frá upphafi og því er þetta mikill skellur,“ segir Þórgnýr. Skömmu fyrir páska átti Akureyrarstofa fund með tengiliðum frá Hlíðarfjalli, Sundlauginni, hótelum, gistiheimilum, veitingastöðum, verslunum og fólki úr menningarlífinu á Akureyri til að undirbúa páskana.

„Hótelin voru þétt bókuð og ég held það megi fullyrða að það stefndi í met nýtingu miðað við það sem verið hefur yfir páskahátíðina. Ljóst er að tekjutapið er mikið. Flestir sem hugðust leggja leið sína hingað spurðu um Hlíðarfjall og hvort það verði eitthvað opið. Skíðasvæðið er aðalmálið og fólk einfaldlega hætti við þegar það var úr sögunni.“ 


Nýjast