Messa á Þönglabakka í Fjörðum á sunnudag

Áhugahópur um gönguferðir og helgihald á Þönglabakka boðar til messu sunnudaginn 26. júlí nk. kl. 14.00. Messað verður undir berum himni á grunni Þönglabakkakirkju. Byggð í Fjörðum lagðist af 1944 og kirkjan var tekin ofan. Þau sem vilja koma til messu geta ekið sem leið liggur í Hvalvatnsfjörð og gengið þaðan yfir hálsinn til Þönglabakka. Ætla má að aksturinn taki eina og hálfa klukkustund og síðan sé gengið í um það bil klukkustund.  

Áformað er einnig að fara frá Grenivík með bát í Þorgeirsfjörð ef  sjólag heimilar. Þá þarf að fara með gúmbát í land því engin er bryggjan. Panta þarf pláss með bátnum hjá eigandanum Árna Dan í síma 8923189. Að messu lokinni verður kirkjukaffi, en óvíst er um lummur. Nánari upplýsingar í síma 897 2221, (Kristján Valur) eða  8958131 (Björn).

Fyrsta messuferð af þessu tagi var farin á sama tíma síðastliðið sumar. Þá voru messugestir 160 og komu gangandi, ríðandi og siglandi í góðu veðri. Þar á meðal komu afkomendur síðustu ábúenda á Þönglabakka siglandi frá Húsavík. Niðjar þeirra sem áður bjuggu í Fjörðum eru víða og fjölmenntu, en einnig annað útivistar- og kirkjufólk.

Nýjast