„Mér fannst aldrei vera raunveruleg hætta frá þeim“

Sæþór Olgeirsson. Myndin er úr safni Hafþórs Hreiðarssonar
Sæþór Olgeirsson. Myndin er úr safni Hafþórs Hreiðarssonar

Karlalið Völsungs hóf leik í 2. deild karla í fótbolta með útileik gegn Fjarðabyggð í höllinni á Reyðarfirði á laugardag.  

Völsungar fóru af fullum krafti úr blokkunum og voru 3-0 yfir í hálfleik. Gestirnir komust yfir snemma í leiknum með sjálfsmarki. Markahrókurinn Sæþór Olgeirsson bætti við tveimur mörkum áður en flautað var til hálfleiks. Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri og fleiri urðu mörkin ekki. 0-3 fyrir Völsung var niðurstaðan og efsta sætið í deildinni eftir fyrstu umferð.

„Við náðum forystu snemma í leiknum með þessu sjálfsmarki en við vorum miklu betri í fyrri hálfleik. Í seinni bökkuðum við aðeins og vörðum forystuna. Þeir voru mun meira með boltann en mér fannst aldrei vera raunveruleg hætta frá þeim,“ segir markaskorarinn knái í samtali við Vikublaðið. Sæþór er að vonum ánægður með góða byrjun sína á tímabilinu en hann er kominn með tvö mörk í deild og fimm í bikar. „Það sem mestu máli skiptir er þó að liðið er að spila vel og það er að skila sér í góðum úrslitum,“ segir hann.

Sæþór segir að tímabilið leggist vel í sig en fer varlega í það að lýsa yfir markmiðum. „Það er væntanlega klisja að segja að við ætlum okkur að gera betur en í fyrra enda er ekki annað í boði. Ég get sagt að við ætlum okkur að vera í pakkanum sem berst um sæti í 1. deild,“ segir Sæþór sem lofar góðum heimaleik þegar Völsungur tekur á móti ÍR á laugardag í deildinni. Leikurinn fer fram á Vodafonevellinum á Húsavík og hefst klukkan 16.

Völsungur hefur keppni í 2. deild kvenna í dag klukkan 16. gegn SR á Þróttarvellinum. Félagið hefur verið að styrka sig fyrir leiktíðina en á dögunum skrifuðu tveir erlendir leikmenn undir samning við Völsung. Spænski markvörðurinn Mar Sánchez Celdrán kemur til með að verja mark Völsunga í sumar.

Þá hefur Samara Lino skrifað undir samning við Völsung um að leika með liðinu út leiktíðina. Samara kemur frá Brasilíu og hefur leikið í háskólaboltanum í USA. Hún er sóknarþenkjandi miðjumaður.  


Athugasemdir

Nýjast