Meirihlutinn á Akureyri myndi kolfalla

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og L-listinn, myndi kolfalla ef sveitarstjórnarkosningar færu fram í dag. Þetta sýnir könnun Fréttablaðsins. Sjálfstæðismenn fengju fjóra menn kjörna og L-listinn tvo. Samkvæmt könnunninni stefnir í miklar breytingar á bæjarstjórn Akureyrar. Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og L-listans myndi falla ef kosið væri í dag.

Samkvæmt niðurstöðunum yrði Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkurinn í bæjarstjórninni. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist tæplega 29 prósent. Næstur kemur L-listinn, sem einnig er myndaður af fólki úr Viðreisn og Bjartri framtíð. Hann er með tæplega 21 prósent. VG kemur síðan með 11 prósent og Framsóknarflokkurinn með 10 prósent. Þá fengi Samfylkingin tæplega 10 prósenta fylgi, Miðflokkurinn tæplega níu prósent og Píratar rúm sjö.

Útkoma Miðflokksins í könnuninni vekur sérstaka athygli, sé horft til þess að flokkurinn hefur ekki enn tilkynnt hvort hann muni bjóða fram lista á Akureyri og þaðan af síður hvaða menn myndu skipa listann, segir í frétt Fréttablaðsins. 

Í bæjarstjórn Akureyrar sitja ellefu fulltrúar. Ef niðurstaða kosninganna 26. maí yrði í takti við könnunina fengi Sjálfstæðisflokkurinn fjóra kjörna fulltrúa í bæjarstjórn, L-listinn fengi tvo. 

VG, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Píratar, og Miðflokkurinn fengju svo einn mann kjörinn hver.

Þessi niðurstaða myndi þýða að bæjarstjórnin tæki miklum breytingum eftir kosningar. Í kosningunum fyrir fjórum árum fékk Sjálfstæðisflokkurinn þrjá menn kjörna, L-listinn fékk tvo menn, Samfylkingin fékk tvo menn, Framsóknarflokkurinn tvo, VG fékk einn mann og Björt framtíð, sem þá bauð fram sérlista, fékk einn mann. Samfylkingin, L-listinn og Framsókn mynduðu meirihluta.
 

Hringt var í 930 manns með lögheimili á Akureyri þar til náðist í 809 samkvæmt lagskiptu úrtaki 2. maí. Svarhlutfallið var 87 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóð­skrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir aldri. Alls tók 49,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. Þá voru 13,1 prósent sem sögðust ekki ætla að kjósa eða ætla að skila auðu, 22,4 prósent sögðust óákveðin og 15,4 prósent vildu ekki svara spurningunni.

Nýjast