Meirihluti stjórnar Akureyrarstofu samþykkti fjárhagsáætlun næsta árs
Á síðasta fundi stjórnar Akureyrarstofu var lokayfirferð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 fyrir málaflokka stjórnarinnar; menningarmál, atvinnumál og kynningar- og útgáfumál. Meirihluti stjórnar samþykkti fyrirliggjandi áætlun og var framkvæmdastjóra Akureyrarstofu falið að ljúka frágangi hennar í samræmi við umræður á fundinum. Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista lagði fram bókun, þar sem hún m.a. skorar á bæjarstjórn að setja meira fé til atvinnusköpunar í gegnum lista- og menningarverkefni.
Helena Þ. Karlsdóttir S-lista og Sóley Björk sátu hjá við afgreiðslu málsins. Bókun Sóleyjar er svohljóðandi: Ég get ekki samþykkt þessa fjárhagsáætlun sem unnin er út frá mjög þröngum ramma sem ákvarðaður er af bæjarstjórn Akureyrar og gefur ekkert svigrúm til að líta á menningu sem tækifæri til atvinnusköpunar. Áætlunin gengur út á það eitt að viðhalda rekstri menningarstofnana á meðan siglt er í gegnum það samdráttartímabil sem yfir okkur gengur en ekkert tillit er tekið til þeirra sem skapa þá menningu sem stofnanirnar eru til fyrir. Ég skora á bæjarstjórn Akureyrar að breyta fjárhagsrammanum og auka fé til atvinnusköpunar í gegnum lista- og menningarverkefni.