Meirihluti Akureyringa vill banna lausagöngu katta

Mikill meirihluti bæjarbúa á Akureyri vill banna lausagöngu katta í bænum samkvæmt skoðanakönnun Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA). Alls voru tæplega 43% mjög sammála og 14,5% frekar sammála því að banna ætti lausagöngu katta, en 28% ósammála. Tæplega 15% svöruðu hvorki né.

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 23. apríl til 4. maí. Haft var samband í gegnum tölvupóst og fengust 663 svör.

Lausaganga katta var rædd í viðtalstíma við bæjarfulltrúa á Akureyri nýverið þar sem sem óskað var eftir breytingum og lausagangi yrðu bönnuð. Umhverfis- og mannvirkjaráð sagði í svari að ekki standi til að gera breytingar á reglum um hunda-og kattahald að svo stöddu.

Kattahald bannað í Grímsey og lausaganga bönnuð í Hrísey

Samkvæmt reglugerð Akureyrarkaupstaðar er kattahald bannað í Grímsey og mega kettir hvorki dvelja í Grímsey né koma í heimsóknir. Þá er lausaganga katta bönnuð í Hrísey. Í reglugerð segir einnig að, „eigendur og umráðamenn katta skulu gæta þess vel, að kettir þeirra valdi ekki hættu, óþægindum, óþrifnaði eða raski ró manna.“


Athugasemdir

Nýjast