Meðferðarheimilið á Laugalandi heldur tónleika; „Í minningu Sissu“

Meðferðarheimilið á Laugalandi fékk þá hugmynd á vordögum að halda tónleika til þess að styrkja minningarsjóð Sigrúnar Mjallar Jóhannesdóttir.  Sigrún Mjöll eða Sissa eins og hún var oftast kölluð var í meðferð á Laugalandi og átti góða tíma þar. Hún lést í júní 2010 eftir of stóran skammt af læknadópi aðeins 17 ára gömul.  

Við andlát Sissu var stofnaður minningarsjóður sem hefur það hlutverk að stuðla að skapandi störfum ungmenna sem lent hafa út af sporinu og eru á meðferðarheimilum landsins. Úthlutað er úr sjóðnum 22. desember á afmælisdegi Sigrúnar Mjallar. Tónleikarnir fara fram í Hofi, menningarhúsinu á Akureyri föstudaginn 30. september kl.20:00. Fram koma vinsælustu tónlistarmenn landsins í dag og verður efnisskráin fjölbreytt enda tónleikarnir hugsaðir sem fjölskyldutónleikar. Fram koma: Óskar Pétursson, Eyþór Ingi Jónsson, Friðrik Dór, Rúnar Eff, Kristmundur Axel, Bjartur Elí, Júlí Heiðar, Kór Glerárkirkju, Karlakór Akureyrar- Geysir, Hvanndalsbræður, Bent, Steindi jr. og Páll Óskar. Kynnir: Þórunn Antonía.

Miðasala hófst í dag, föstudaginn 2. september kl.13:00. Hægt er að kaupa miða á http://www.minningsissu.is/ og einnig á www.midi.is

Nýjast