Meðaltekjur félagsmanna Einingar-Iðju 312.000 krónur

Samkvæmt nýgerðri kjarakönnun Einingar-Iðju eru meðalheildarlaun félagsmanna kr. 312.000 á mánuði. Í marktækum svarhópum eru heildarlaun hæst meðal bílstjórar/lager-/tækjastarfsmenn eða kr. 363.000 og síðan í flokknum annað eða kr. 358.000. Lægstu meðalheildarlaun eru í ræstingar/skólaliðar/leiðbeinendur eða kr. 258.000 og síðan kr. 272.000 í mötuneyti/veitingastörf.

Könnunin leiddi í ljós að á meðal fólks í 100% starfshlutfalli eru konur að jafnaði með rúmleg 15% lægri heildarlaun en karlar. Meðalheildargreiðslur karla voru rúmar 336 þúsund krónur, en meðalheildargreiðslur kvenna rúmar 282 þúsund krónur. Að teknu tilliti til aldurs, aldurs í öðru veldi, starfs, vinnufyrirkomulags (dagvinna/vaktavinna) og fjölda vinnustunda minnkaði munur á heildarlaunum í 7,4% (vikmörk +/- 7,9%) Því er með 95% vissu hægt að segja að meðal fólks á sama aldri, í sömu starfsgrein, með sama vinnufyrirkomulag og vinnur sama fjölda vinnustunda séu konur með á bilinu 14,6% lægri til 0,5% hærri heildarlaun heldur en karlar. Menntun hafði ekki marktæk áhrif á mun á heildarlaunum kynjanna.

Munurinn verður enn minni ef dagvinnulaun eru skoðuð. Meðaldagvinnulaun kvenna eru að jafnaði 1,6% lægri en karla. Meðaldagvinnulaun karla í 100% starfshlutfalli voru rúmlega kr. 237.000 en dagvinnulaun kvenna að meðaltali rúmlega kr. 233.000.

Að teknu tilliti til aldurs, aldurs í öðru veldi, starfs, vinnufyrirkomulags (dagvinna/vaktavinna) og fjölda vinnustunda minnkaði launamunur á dagvinnulaunum í 3,2% (vikmörk +/- 8,39%) Því er með 95% vissu hægt að segja að konur séu með á bilinu 11,5% lægri til 5,1% hærri heildarlaun heldur en karlar. Menntun hafði ekki marktæk áhrif á mun á heildarlaunum kynjanna. Meðaltal er ekki birt nema það samanstandi af 8 eða fleiri svarendum. Einungis eru birt svör þeirra sem voru í 70% starfshlutfalli eða hærra. Laun þeirra sem voru í 70-99% starfshlutfalli eru uppreiknuð miðað við 100% starfshlutfall. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.

 

Nýjast