Með öllu óvelkomið ákavíti á Húsavík!

Sigurjón Jóhannesson t.v. ásamt syni sínum. Sem varð þó ekki Ákavítisflöskunnar aðnjótandi. Mynd: SB…
Sigurjón Jóhannesson t.v. ásamt syni sínum. Sem varð þó ekki Ákavítisflöskunnar aðnjótandi. Mynd: SBS.

 

Fyrir allmörgum árum kom hópur unglinga frá danska vinabænum Álaborg til Húsavíkur. Í kveðjuhófi við brottför hópsins skiptust menn á góðum gjöfum og voru ekki tíðindi. En einn af þeim sem hafði greitt götu Álaborgara á Húsavík og verið þeim innan handar um margt, var Sigurjón Jóhannesson skólastjóri. Hann var jafnframt formaður áfengisvarnanefndar um árabil og einn “alræmdasti bindindismaður”  bæjarins. Það þótti því sumum koma vel á vondan þegar dönsku gestirnir afhentu Sigurjóni í kveðjuskyni lítersflösku af dýrindis Álaborgar ákavíti.

Um þetta stórmál var fjallað í Víkurblaðinu þannig að allir bæjarbúar vissu um  áfengisgjöfina og var helsta umræðuefni manna á meðal hvað skólastjórinn myndi nú gera við ákavítið og óttuðust sumir að hann myndi jafnvel hella þessum guðaveigum niður!

Þegar Sigurjón las fréttina, taldi hann að nú væri aðeins um eitt að ræða, þ.e.a.s. að losa sig hið snarasta við flöskuna og auglýsa síðan rækilega að hann væri orðinn með öllu brennvínslaus á ný. Aðeins þannig kæmi hann í veg fyrir stöðugar heimsóknir manna á síðkvöldum sem kæmu drafandi að dyrum hans og segðu: “Heyrðu Sigurjón minn, geturðu ekki lánað gömlum nemanda þínum og vini svo sem eina ákavítisflösku?” JS


Athugasemdir

Nýjast