Ætlar í umfangsmikla lyfjaframleiðslu á Akureyri og ráða 100 manns í vinnu

Hákon Hákonarson.
Hákon Hákonarson.

Hákon Hákonarson, sérfræðingur í lungna- og genarannsóknum á barnasjúkrahúsi í Fíladelfíu, ætlar í umfangsmikla lyfjaframleiðslu á Akureyri. Hann hefur starfað í Bandaríkjunum í um aldarfjórðung samtals. Lyfið Kacityn er eitt þeirra fimm sem Hákon stefnir á að rannsaka frekar og framleiða á Akureyri.

Systurdóttir konu hans nefndi lyfið en hún lamaðist eftir heilablæðingu fyrir 6 árum. Hákon telur að verði börn meðhöndluð með lyfinu frá 6-10 ára aldri geti það komið í veg fyrir að sjúkdómseinkennin sem þessi arftengda heilablæðing veldur komi fram síðar í lífinu. Hann stefnir á að framkvæma frekari rannsóknir á því.

Fjallað er um þetta í Læknablaðinu þar sem rætt er við Hákon.

Uppbygging á Akureyri

Hákon stefnir nú að því að ráða hátt í 100 manns á Akureyri til fyrirtækis síns, Arctic Therapeutics, og bæði rannsaka og svo framleiða heilablóðfallslyfið í uppfærðri mynd, auk fjögurra annarra. Þessi barnalæknir í Bandaríkjunum stefnir að því að flytja á heimaslóðir þegar fram í sækir og halda um taumana innan fyrirtækisins.

„Það er mér mikilvægt að skapa þessi störf á Akureyri því hámenntað fólk sem útskrifast frá Háskólanum á Akureyri flytur annað til að sækja vinnu á þessu sviði ef þau eru ekki til staðar.“

Hákon segir um 150 manns hér á landi í áhættu á að hafa genið sem valdi heilablæðingunni. „Heilablæðingin hefur verið dauðadómur fyrir þá sem hafa þessa stökkbreytingu. Hún er í ákveðnum ættum og er algengari í ákveðnum landshlutum. Þótt auðvelt sé að greina þetta vill fólk ekki gera það því það hefur engin meðferð verið til,“ segir Hákon.

Viðtalið í Læknablaðinu má lesa hér.

 

 


Athugasemdir

Nýjast