Knattspyrnumarkmaðurinn sterki frá Ungverjalandi, Matus Sandor var nú rétt í þessu valinn Íþróttamaður KA árið 2008. Sandor hefur leikið með knattspyrnuliði KA frá árinu 2004 við mjög góðan orðstýr en hann þykir einn albesti markvörðurinn sem leikið hefur hérlendis. Hann hefur einungis misst úr örfáa leiki á þeim fimm tímabilum sem hann hefur varið mark KA-manna og verið liðinu mjög traustur.
Auk þess að vera aðalmarkvörður KA sér Sandor um þjálfun allra markvarða yngri flokka félagsins í knattspyrnu og eru miklar blikur á lofti um að það starf muni fljótlega fara að skila sér fyrir bæði karlaknattspyrnuna í bænum sem og kvennaknattspyrnuna hjá Þór/KA.
Sandor er því svo sannarlega vel að verðlaunum sínum kominn enda góð fyrirmynd fyrir unga íþróttamenn og gríðarlega öflugur leikmaður. Hann er ekki staddur á landinu og gat því ekki veitt verðlaunum sínum viðtöku en hann er væntalegur til landsins á næstu vikum og mun halda áfram starfi sínu fyrir KA. Í öðru sæti í kjöri Íþróttamanns KA varð blakmaðurinn Piotr Kempisty og í þriðja sæti urðu með jafn mörg atvkæði þær Arna V. Erlingsdóttir handboltakona og Una Margrét Heimisdóttir blakkona.