Matsgerð lögð fram til grundvallar kröfum vegna viðgerðarkostnaðar á Þórsstúkunni

Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum fyrir helgi að leggja matsgerð dómkvaddra matsmanna til grundvallar kröfum vegna kostnaðar sem rekja má til leka í áhorfendastúkunni á Þórsvelli. Eins og fram hefur komið í Vikudegi er það mat matsmannanna Júlíusar Sólnes byggingarverkfræðings og Snæbjörns Kristjánssonar byggingarverkfræðings, að allir aðilar beri nokkra ábyrgð á því að stúkan lekur.  

Ábyrgð verkfræðings er talin mest, eða 41%, ábyrgð verktaka/byggingarstjóra 27%, ábyrgð aðalhönnuðar 23% og ábyrgð verkkaupa/eftirlitsmanns 9%. Heildarkostnaður við þær aðgerðir sem matsmennirnir leggja til er tæplega 15 milljónir króna og tjón verkkaupa er metið rúmlega 11 milljónir króna. Þar til frádráttar ætti að koma „eigin ábyrgð" verkaupa/eftirlitsmanns sem nemur 9% eða 1,0 milljón króna. Matsmennirnir benda á í skýrslu sinni, að hér sé um grófa og ekki mjög nákvæma deilingu ábyrgðar að ræða, enda sé það frekar dómstóla að skera úr um slíkt ágreiningsefni. Það er Akureyrarbær sem er matsbeiðandi en matsþolar eru byggingarfélagið Hyrna ehf., arkitektastofan Kollgáta ehf., og verkfræðistofan Mannvit, starfsstöð á Akureyri.

Nýjast