Mateja verður ekki með Þór/KA í sumar

Mateja Zver í leik með Þór/KA sl. sumar.
Mateja Zver í leik með Þór/KA sl. sumar.

Mateja Zver, knattspyrnukonan öfluga frá Slóveníu, verður ekki með liði Þórs/KA í sumar í Pepsi-deildinni. Þetta staðfesti Aðalsteinn Pálsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs, í samtali við Vikudag. Þetta er mikil blóðtaka fyrir Þór/KA en Mateja hefur leikið með liðinu undanfarin fjögur sumur og verið einn besti leikmaður liðsins. Norðanliðið hefur einnig misst fyrrum fyrirliða sinn, sóknarmanninn Rakel Hönnudóttur, frá félaginu en hún gekk í raðir Breiðabliks og því hefur Þór/KA misst tvo bestu sóknarmenn liðsins.

Liðið hefur hins vegar bætt við sig þremur leikmönnum, þeim Katrínu Ásbjörnsdóttur landsliðskonu sem kom frá KR, Þórhildi Ólafsdóttur frá ÍBV og Chantel Nicole Jones, markvörður frá Bandaríkjunum. Samkvæmt heimildum Vikudags er Þór/KA með erlenda leikmenn í sigtinu til þess að styrkja liðið fyrir komandi átöki í Pepsi-deildinni.

Nýjast