Markmiðið að vera í baráttunni um alla titlana
Handboltaunnendur geta farið að taka gleði sína á ný en á mánudaginn kemur hefst N1-deild karla á ný. Akureyri Handboltafélag átti frábært tímabil í fyrra þar sem liðið varð deildarmeistari og lék til úrslita í bikarnum og um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.
Norðanmenn senda lítið breytt lið til leiks í vetur. Félagið hefur misst þá Halldór Loga Árnason línumann og varnarmanninn sterka Hrein Þór Hauksson. Halldór samdi við ÍR en Hreinn lagði skóna á hilluna. Í hópinn hafa bæst þeir Ásgeir Jónsson línumaður frá Aftureldingu og hornamaðurinn Heiðar Þór Aðalsteinsson, sem er aftur kominn í raðir norðanmanna.
Vikudagur spjallaði við Atla Hilmarsson þjálfara Akureyrar um komandi vetur.
„Þessi vetur leggst bara vel í mig. Við erum með svipað lið og í fyrra og ég held að þetta geti orðið spennandi vetur. Við ætlum okkur að vera á svipuðum slóðum og í fyrra,“ segir Atli. Aðspurður hvort stefnan sé sett á Íslandsmeistaratitilinn í ár segir Atli: „Við ætlum okkur að vera í baráttunni um alla titlana í vetur. Það er markmiðið."
Nánar er rætt við Atla um N1-deildina í nýjasta tölublaði Vikudags.