Markalaust á Þórsvelli

Þór og Grindavík gerðu markalaust jafntefli í dag í tilfþrifalitlum leik á Þórsvelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Jafntefli verður að teljast nokkuð sanngjörn niðurstaða. Leikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtun en bæði lið hefðu með sigri í dag farið langleiðina með tryggja sæti sitt í deildinni.

 

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti. Jóhann Helgi Hannesson var aftur kominn í fremstu víglínu hjá Þór eftir meiðsli og var í tvígang nálægt því að skora á upphafsmínútunum. Leikurinn datt niður eftir ágætis byrjun hjá heimamönnum og fátt gerðist næstu mínútur. Grindavíkingar hresstust örlítið þegar á leið og Orri Freyr Hjaltalín fékk úrvalsfæri á 32. mínútu er hann var sloppinn einn í gegn, en var utarlega í teignum og færið þröngt sem Srjadan Rajkovic varði í marki Þórs.Á 43. mínútu kom langbesta fær fyrri hálfleiksins og það fékk Óli Baldur Bjarnason leikmaður Grindavíkur. Hann fékk boltann inn í teig, lék á varnarmann Þórs og var kominn í opið færi en hitti boltann skelfilega sem fór vel framhjá markinu. Staðan markalaus í leikhléi, eftir frekar bragðdaufan fyrri hálfleik.

Sama miðjumoðið hélt áfram í seinni hálfleik þar sem heimamenn voru sterkari. Það fór aðeins að hressast yfir leikmönnum þegar líða tók á seinni hálfleikinn og átti Jóhann Helgi Hannesson fínt skot rétt yfir markið á 64. mínútu.

Það var fátt sem gerðist eftir þetta en helsta fjörið var í kringum dómara leiksins, Kristinn Jakobsson, sem tók nokkur umdeildar ákvarðanir í leiknum.

Lokatölur á Þórsvelli, 0:0. Bæði lið fara upp í 18 stig í níunda og tíunda sæti deildarinnar.

Nýjast