Þetta er í annað sinn sem viðurkenningin er veitt en Rafeyri hlaut "Brostu verðlaun" janúarmánaðar fyrir stórt blikkandi hjarta í Vaðlaheiði, sem fyrirtækið setti upp í samstarfi við Becromal og Norðurorku, til að lýsa upp svartasta skammdegið á erfiðum tímum. Margrét segir að rekstur Norðurports hafi gengið vel og hún horfir full bjartsýni til framtíðarinnar. "Þetta hefur verið skemmtilegur tími, ég hef kynnst mikið af fólki og lært alveg heilmikið." Norðurport hóf starfsemi að Dalsbraut 1 í byrjun desember sl. en um áramót var flutt í Laufásgötu, þar sem Sjóbúðin var áður til húsa. Eftir umfangsmiklar endurbætur á húsnæðinu, þar sem margir lögðu hönd á plóg, fór starfsemin í gang á ný í lok janúar sl. "Þessi tími við endurbæturnar var einstaklega skemmtilegur en ég er komin með fleiri konur í þetta með mér. Það voru allir svo góðir við okkur og við fengum nánast allt sem þurftum upp í hendurnar og fengum m.a. gefins málningu, gólfdúk, ísskáp og eldavél."
Margrét segir að þótt húsnæðið við Laufásgötu sé minna en húsnæðið við Dalsbraut, henti það engu að síður mun betur undir starfsemina. Norðurport er markaður sem selur nýjar og notaðar vörur af öllum gerðum og geta áhugasamir tekið á leigu sölubás í húsnæðinu. Margrét segir undirtektir hafi verið mjög góðar og margir vilji komast inn með sínar vörur en þarna geta verið 25-30 aðilar í senn. Í húsnæðinu er jafnframt rekið kaffihús og þar eru myndlistarsýningar.
Margrét fékk inni með verkefni sitt á Sprotasetri VAXEY en þar hefur verið sköpuð aðstaða og stuðningsumhverfi fyrir fólk sem vill hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. "Ég er þarna með skrifstofuaðstöðu og get komið og farið eins og mér hentar og þarna hef ég fengið aðstoð." Norðurport er opið á laugardögum frá kl. 11-17 og á sunnudögum frá kl. 12-17. Margrét segir að stefnt sé að því að nýta húsnæðið enn betur og séu ýmsar hugmyndir til skoðunar í því sambandi.