Margir illa að sér um hönnunar- forsendur Dalsbrautar

Ólafur Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri hefur sent Vikudegi eftirfarandi athugasemd vegna fréttar á vikudagur.is um Dalsbraut. "Ég vil vekja athygli á því að ekki er rétt eftir mér haft í vefútgáfu Vikudags þar sem vitnað er í ræðu mína í  umræðu í bæjarstjórn s.l þriðjudag varðandi hámarkshraða á Dalsbraut um Lundarhverfi," segir Ólafur.  

"Það sem ég sagði var, að því miður væru margir illa að sér um hönnunarforsendur götunnar og héldu að þarna ætti að leggja götu með 30 km hámarkshraða. Margir þeir hinir sömu  teldu það líka eðlilegt þar sem þessi 1000 m langi spotti lægi fram hjá skóla og íþróttahúsi og tæki við umferð úr nýju hverfi þar sem hámarkshraði er alls staðar 30 km. Ég nefndi einnig að þessa misskilnings hefði líka gætt hjá  einhverjum bæjarfulltrúa. Það var síðan annar bæjarfulltrúi sem fór í kjölfarið í pontu og lýsti yfir stuðningi við lagningu götunnar, enda væri þarna um vistgötu að ræða. Ég vil síðan árétta að í nýlegum drögum að hönnun götunnar var þess getið að 30 km hámarkshraði yrði að minnsta kosti á skólatíma framan við Lundarskóla. Í bæjarstjórn svaraði formaður bæjarráðs því til að þessa skýrslu hefði aldrei átt að birta.

Staðreyndin er sú að allar útreiknaðar forsendur fyrir þessum spotta, í allri sinni lengd, eru tengibraut með 50 km hámarkshraða. Ég hef spurt formann bæjarráðs, formann skipulagsnefndar, formann skólanefndar og formann umhverfisnefndar varðandi afstöðu þeirra til hámarkshraða á götunni. Aðeins formaður bæjarráðs hefur svarað og sagt að spottinn verði með 50 km hámarkshraða, hinir hafa ekki skoðun á málinu. Ég hvet alla íbúa sem áhuga hafa á þessu máli að kynna sér vel allar skýrslur um málið. Eru hér möguleikar til að ná sátt í erfiðu máli, eftir að stóra kosningarloforðið um stokkinn góða heyra sögunni til?"

Nýjast