Alls bárust sex umsóknir um rekstur og uppbyggingu skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli á Akureyri sem auglýst var í vetur en umsóknarfrestur rann út í lok apríl. Tvær umsóknir snúa að heilstæðum rekstri en fjórar að uppbyggingu að hluta til í fjallinu.
Eins og Vikudagur hefur fjallað um var Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE) falið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér rekstur og uppbyggingu skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli með það að markmiði að auka aðsókn og efla þjónustu við bæjarbúa, íþróttaiðkendur og ferðamenn.
Allar umsóknirnar sem bárust eru frá íslenskum fyrirtækjum en ákveðið var að auglýsa fyrst hér á landi og kanna viðbrögðin. AFE kynnti niðurstöðurnar nýverið á fundi bæjarráðs Akureyrar og hefur AFE verið falið að vinna áfram að málinu.
Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri AFE, sagði í samtali við Vikudag að viðbrögðin hefðu verið vonum framar og umsóknir þeirra tveggja aðila sem komu með tillögur um heilstæðan rekstur verði skoðaðar nánar. Von sé á frekari niðurstöðum um mánaðarmótin.
Akureyrarbær hefur undanfarið kannað möguleikann á úthýsingu á rekstri Hlíðarfjalls en rekstur skíðasvæðisins hefur verið þungur fyrir Akureyrarbæ síðustu árin og hefur bærinn þurft að greiða með rekstrinum.