Máni Jónsson í Tungu var mikill öðlingur og hvers manns hugljúfi. Hann átti það til að skemmta vinnufélögum sínum hjá byggingafyrirtækinu Varða hf á Húsavík með nokkuð svona gassalegum ýkjusögum og gerði það ekki síst í kaffitímanum að morgni.
Eitt sinn var Máni óvenju daufur í dálkinn í morgunkaffinu og vildu menn vita hverju það sætti. Jú, Máni kvaðst bara ekki hafa sofið dúr um nóttina fyrir hávaða. Nú, var það umferðin eða kannski partý í næsta húsi sem hélt fyrir þér vöku? Var spurt.
„Nei, það var sprettan, þessi gríðarlega spretta í kartöflugarðinum við Tungu.“ Svaraði Máni. Viðstaddir sperrtu eyrun og vildu auðvitað vita hvernig í ósköpunum spretta í kartöflugarði gæti verið uppspretta hávaða.
„Jú, sjáiði til piltar mínir. Eins og ævinlega er þvílíkur ofurvöxtur í kartöflunum mínum, að það brakar og brestur í jarðveginum þegar þessir rosalegu boltar eru að ryðja frá sér moldinni með hávaða og látum. Þetta er svo svakalegt að ég er marga daga að aka uppskerunni heim í hús í hjólbörum, því aðeins tvær meðalstórar kartöflur úr mínum garði fylla börurnar!“
Sagði Máni í Tungu og glotti glaðbeittur við fót. JS