Málþing um umhverfismál og sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 22. september kl. 9 - 12 verður haldið opið málþing í Ketilhúsinu á Akureyri, undir heitinu: Umhverfismál og sjálfbær þróun. Norræn samvinna með þátttöku íbúa og fyrirtækja. Málþingið er haldið í tengslum við loftslagsráðstefnu norrænu vinabæja Akureyrar, sem haldin er í bænum dagana 21. - 23 september.  

Málþingið er haldið í samvinnu við Norrænu upplýsingaskrifstofuna á Akureyri og fer að mestu fram á norrænum málum. Flutt verða sex erindi: Danfríður Skarphéðinsdóttir sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu kynnir norrænt umhverfissamstarf. Guðmundur Halldórsson, rannsóknarstjóri hjá Landgræðslu ríkisins fjallar um "Vistheimt á Norðurlöndum". Ásgeir Ívarsson efnaverkfræðingur frá Mannviti,  fjallar um framleiðslu eldsneytis úr úrgangi á Akureyri. Eiður Guðmundsson framkvæmdastjóri Moltu segir frá jarðgerð á lífrænum úrgangi frá Eyjafjarðarsvæðinu og Anna Jungmarker og Kjell Sandli stjórnendur umhverfismála í Västerås og Álasundi gera grein fyrir vinnu að umhverfismálum og sjálfbærri þróun í sínum bæjum.

Málþingið hefst á tónlistarflutningi og síðan opnar Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar þingið.  Málþingið er öllum opið, en æskilegt að fólk skrái sig á netfangið mariajons@akureyri.is Innan norrænu vinabæjarkeðjunnar, sem Akureyri á aðild að fara fram margháttuð samskipti og samvinna.  Samvinna í umhverfismálum á sér nokkurra ára sögu og sameiginleg loftslagsráðstefna er nú haldin í fimmta skipti og í fyrsta sinn á Akureyri. Fyrri ráðstefnur voru í  Álasundi, Västerås, Lahti og  Randers.

Nýjast