Ráðherra tekur einnig þátt í pallborðsumræðum ásamt starfsfólki í heilbrigðisgeiranum í lokin. Fundarstjóri er Pétur Pétursson heilsugæslulæknir. Á málþinginu er til kallaðir fræðimenn sem kynna það nýjasta í samskiptafræðum, í samspili erfða og aðstæðna og hvað skapar heilbrigði og hvað sjúkleika og hins vegar er horft til þeirrar reynslu sem við höfum öðlast. Með tilliti til fenginnar reynslu og nýrrar þekkingar verður síðan horft til framtíðar. Á málþinginu verður meðal annars fjallað um nýjan skilning á tilfinningalífi og tengslamyndun sem byggir bæði á fjölfræðilegri þekkingu og niðurstöðum rannsókna sem sýna fram á að heilinn og taugakerfið beinlínis nærast á ást og umhyggju, sér í lagi á fyrsta æviskeiði.
Samfélagsþróunin er slík í dag að mikil og vaxandi þörf er fyrir margvíslega þjónustu og stuðning við fjölskyldur og einstaklinga sem eru að takast á við afleiðingar áfalla, mikillar streitu, sjúkdóma eða vanrækslu. Kynbundið ofbeldi og afleiðingar þess eru stöðugt meira að koma upp á yfirborðið og um leið vaxandi skilningur á því hvernig óleystur vandi foreldra og þöggun samfélagsins kemur niður á heilsu og velferð barna. Rannsóknir benda til að heilbrigð og ástrík tilfinningatengsl verki líkt og bólusetning fyrir áföllum síðar meir.
Góð tengslamyndun byggist fyrst og síðast á innlifunarhæfni foreldra og getu til að mæta og takast á við erfiðar tilfinningar á verðugan hátt. Því þykir mikilvægt að foreldrum bjóðist aðgengileg aðstoð til að takast á við streitu, áföll, erfið samskipti eða vanlíðan innan fjölskyldunnar. Til þess þarf heilsugæsla landsins að vera í stakk búin til að þróa virka fjölskyldu- og geðvernd, segir m.a í fréttatilkynningu.