Málefni Iðnaðarsafnsins á Akureyri -Þetta lið grenjaði hér fyrir kosningar segir safnstjórinn

Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri   Mynd  Iðnaðarsafnið
Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri Mynd Iðnaðarsafnið

Málefni Iðnaðarsafnsins á Akureyri  voru til umræðu í bæjarráði Akureyrar i morgun og eftir þá umræðu og samþykkt ráðsins má búast við breytingum á rekstri safnsins

Í fundargerð  bæjarráðs má lesa.

  ,,Um langt skeið hefur verið ljóst að núverandi rekstrarform Iðnaðarsafnsins gengur ekki upp og að óbreyttu stefnir í að safnið loki þann 1. mars nk. Akureyrarbær sem einn af stofnaðilum safnsins hefur áhuga á því að vernda einstaka iðnaðar- og atvinnusögu Akureyrar sem Iðnaðarsafnið hefur hingað til haldið utan um og miðlað.

Í því skyni að styðja við varðveislu og sýnileika þessarar sögu til framtíðar felur Akureyrarbær forstöðumanni atvinnu- og menningarmála að vinna, í samvinnu við stjórn Minjasafnsins og stjórn Iðnaðarsafnsins, greiningu á þeim kosti að Iðnaðarsafnið sameinist Minjasafninu á Akureyri og leggja í því skyni fyrir bæjarráð ólíkar sviðsmyndir og kostnað við þær.“

Óhætt er að segja að Sigfúsi Ólafi Helgasyni safnstjóra sé ekki skemmt.

,, Nú er það endanlega ljóst að safnið lokar 1 mars. Bæjarráð fjallaði í morgun um safnið og það verða samkvæmt bókun sem gerð var engir peningar lagðir í safnið en hafin vinna við greiningu um fýsileika sameiningar Minjasafnsins og Iðnaðarsafnsins. Við göngum út 1 mars og munum ekki koma nálægt neinni vinnu eftir það.“

Sigfús bætti við ,,þetta er magnað í ljósi þess að allt þetta lið grenjaði hér í heimsóknum fyrir kosningar að nú þyrfti að skjóta styrkum stöðum undir reksturinn í eitt skipti fyrir öll. Það verður ekki gert með sameiningu við Minjasafnið sem sjálft berst í bökkum að halda sér á floti.   Tveir veikir einstaklingar lagðir saman verða ekki einn frískur."

 

 


Athugasemdir

Nýjast