Magni mætir Grundarfirði í 8-liða úrslitum

Magni frá Grenivík mætir Grundafirði í 8-liða úrslitum 3. deildar karla í knattspyrnu um sæti í 2. deild á næsta ári en úrslitakeppnin hefst um helgina. Leikið er heima og heiman og mætast liðin fyrst á Grenivíkurvelli á laugardaginn kemur kl. 14:00. Seinni viðureignin fer fram næstkomandi þriðjudag á Grundarfjarðarvelli. Sigurvegarinn úr rimmunni mætir annað hvort KV eða Augnabliki í undanúrslitum.

Magni steinlá á heimavelli í lokaleik sínum í D-riðli 3. deildarinnar er liðið tók á móti Leikni F. sl. helgi. Gestirnir höfðu betur 5:1 þar sem Baldur Smári Elfarsson skoraði þrennu og Vilberg Marinó Jónasson skoraði tvívegis. Mark Magna skoraði Arnar Logi Valdimarsson.

Magni hafði þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppninni og endar í öðru sæti riðilsins með 20 stig, en Sindri vann riðilinn með 26 stig. Leiknir endaði í þriðja sæti, aðeins stigi á eftir Magna með 19 stig.

Nýjast