Magni er aðeins einum sigri frá sæti í úrslitakeppninni eftir góða ferð austur á Seyðisfjörð þar sem liðið lagði Huginn 2:1 að velli í D-riðli 3. deildar karla sl. helgi.
Brynjar Skúlason kom heimamönnum yfir snemma leiks en Ibra Jagne jafnaði metin fyrir hálfleik. Það var svo Davíð Jón Stefánsson sem tryggði Magna þrjú stig með marki átta mínútum fyrir leikslok.
Magni hefur 17 stig í öðru sæti riðilsins og er lykilstöðu um sæti í úrslitakeppninni. Sindri er á toppnum með 25 stig og þegar komið áfram en Magni sækir Sindra heim í næstu umferð.
Vinni Magni þann leik er sætið í úrslitakeppninni tryggt, en tapi Magni stigum á Hornafirði og Leiknir F. vinnur sinn leik, mætast Magni og Leiknir í hreinum úrslitaleik á Grenivíkurvelli í lokaumferðinni.