Mærudagar að bresta á

Mærudagar, bæjarhátíð Húsavíkinga fer fram um helgina og stefnir í mikla gleði. Dagskráin er mjög fjölbreytt og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, ekki síst yngsta kynslóðin.

Guðrún Huld Gunnarsdóttir er framkvæmdastjóri hátíðarinnar en vegna Covid-19 heimsfaraldursins var tíminn til undirbúnings eitthvað skemmri en áður. Tíminn hefur þó verið nýttur vel og stefnir í mikið stuð á Húsavík um helgina.

„Undirbúningur fyrir þessa hátíð hefur verið heldur styttri en undanfarin ár en farið var af stað í júní eftir að yfirvöld voru búin að gefa grænt ljós á fjöldasamkomur,“ segir Guðrún Huld og bætir við að undirbúningstímabilið sé vanalega um 6 mánuðir.

Guðrún Huld segir jafnframt að vel hafi gengið að skipuleggja hátíðina og flest fyrirtæki Norðurþings  verið tilbúin að leggja í púkkið til að halda hátíð fyrir samfélagið. „Mærudagar eru hátíð vina og fjölskyldna. Mikið er um endurfundi  brottfluttra Húsvíkinga og annara gesta sem hafa haft það að hefð að mæta í víkina fögru,“ segir hún.

Mikið verður um að vera eins og alltaf og er laugardagurinn aðaldagurinn þar sem í boði verður Barnafjör á bryggjunni, söngur, dans og sirkus. Barnadagskráin byrjar kl. 15. Mærudagstónleikarnir byrja kl. 20 á bryggjunni. Auddi Blö og Steindi jr. verða kynnar hátíðarinnar í ár ásamt því að taka lögin sín inn á milli. „Svala Björgvins mun þenja sína fögru englarödd fyrir gesti ásamt ýmsum öðrum tónlistaratriðum stíga á stokk. Við endum hátíðina á fallegum viðburði - Töfrandi stunda á miðnætti er gestir sleppa skýjaluktum upp í himininn og geta óskað sér jafnvel í leiðinni,“ segir Guðrún Huld

Þá má geta þess að á hafnarsvæðinu verður tívolí og götubitastemmning bæði föstudag og laugardag.

Víðsvegar um Húsavík verða svo aðrir minni viðburðir - froðurennibraut, málverkasýningar, mærudagshlaup, hjólreiðakeppni og margt margt fleira.


Athugasemdir

Nýjast