Mæðrastyrksnefnd undirbýr jólaúthlutun
Mér finnst ástandið alls ekki hafa skánað og víða er virkilega erfitt, segir Jóna Berta Jónsdóttir hjá Mæðrastyrksnefnd Akureyrar en nefndarkonur eru nú sem óðast að undirbúa starfsemi sína fyrir jólin. Engin úthlutun hefur verið á vegum nefndarinnar í október og verður heldur ekki í nóvember. Við úthlutum ekki í þessum mánuðum, október og nóvember nema í algjörum neyðartilfellum, segir Jóna Berta.
Hún segir að fljótlega muni Mæðrastyrksnefnd senda út bréf til velunnara sinna og óska eftir aðstoð þeirra vegna úthlutunar á jólamat. Og ég efast ekki um að við fáum góðar viðtökur líkt og áður, það vilja okkur allir vel, segir hún. Álíka margir leituðu eftir aðstoða Mæðrastyrksnefndar fyrir jólin í fyrra og var á árinu þar á undan, en Jóna Berta gerir ráð fyrir að þeir verði ekki færri nú, enda finnst henni ástandið ekki hafa batnað, og jafnvel versnað ef eitthvað er. Ef Guð lofar munum við ekki neita neinum um aðstoð, ég veit að víða er þröngt í búi og fólk er þegar farið að hringja til okkar og spyrjast fyrir um hvort við séum byrjaðar að skrifa niður fyrir jólin, segir Jóna Berta.