Maðurinn samfélagið og trúin

Á síðustu áratugum hefur mannkynið upplifað meiri efnislegar framfarir en nokkru sinni í sögu þess. Það sem hins vegar blasir við er sú staðreynd að framfarir á andlega sviðinu hafa ekki verið samstíga. Hvarvetna blasir við hrikalegt ástand. Stríð eru háð, borgir sprengdar í tætlur; menn, konur og börn drepin í þúsunda tali jafnvel í beinni útsendingu; nútíma þrælahald og mansal viðgengst og ójöfnuður vex og dafnar sem aldrei fyrr

Maðurinn sem andleg vera

Fyrir okkur, sem fyrst og síðast trúum því að maðurinn sé andleg vera, sem sé tímabundið að upplifa og þroskast við efnislegar aðstæður, þá virðist sú staða sem skapast hefur vegna fráhvarfs á trú á Guð, hinni andlegu uppsprettu, vera býsna alvarleg.  „Trúarbrögðin eru æðsta tækið til grundvöllunar reglu í heiminum og frið og hamingju allra sem í honum dvelja.‘‘ ritaði höfundur bahaí trúarinnar um miðja nítjándu öld. Hann hélt því fram að ef áhrif trúar dvíni muni ljós réttlætis og friðar deyja út. Fráhvarf frá trú muni hafa mikil áhrif á mannlega hegðun, sómatilfinning manna muni slakna og stjórnstofnanir missa traust sitt

Mannkynið og froskurinn

Staða mannkynsins í dag minnir  á tilraunina með froskinn. Hann var settur í krukku með köldu vatni sem hitað var upp hægt og rólega. Þó hitinn væri kominn talsvert upp fyrir  það hitastig sem froskinum var hollt, þá haggaðist hann  ekki.  En þegar ýtt var við honum stökk hann upp úr krukkunni í ofboði. Vandamál mannkynsins hafa vaxið hægt og örugglega eins og hitinn í vatnsbaði frosksins. Hraðinn hefur þó aukist eftir því sem á hefur liðið og virðist hröðunin í réttu hlutfalli við framgang efnishyggjunnar, en eyðandi eldur þess fyrirbæris virðist brenna kröftugar nú en dæmi eru um. Froskurinn bjargaði sér þegar honum var gert viðvart að aðstæðurnar væru orðnar hættulegar. Við virðumst eins og froskurinn  komin að hættumörkum í brennandi hita þeirrar deiglu sem efnishyggjan kyndir. Er hugsanlegt að það hafi verið ýtt við okkur en við látið hjá líða að bregðast við?  Er hugsanlegt að mannkynið sé eins og unglingur sem á erfitt með að vakna? Ef svo er þá er spurningin hvaða meðul þarf til að vekja hann ?

Eru trúarbrögðin í rauninni stríðsvaldur

Það er ekki ósjaldan þegar upp kemur umræða um trúarbrögð að því sé haldið fram að þau séu helsti orsakavaldur stríðsátaka. Sem svar við þessu er áhugavert að velta fyrir sér eftirfarandi. Hugsum okkur að höfundar hinna opinberuðu heimstrúarbragða þeir Krishna, Abraham, Móses, Zoroaster, Budda, Kristur, Múhameð og Bahá‘u‘lláh, opinberandi baháí ritninganna, væru saman komnir í einu herbergi. Getum við þá séð fyrir okkur að þeir fari í hár saman og berist jafnvel á banaspjótum?  Ég get ekki séð það fyrir mér, miklu frekar að þeir fallist í faðma og gráti örlög þeirra sem þeir komu til að leiðbeina og kenna. Þeir eru allir opinberendur eins og sama Guðs. Þeir hafa komið fram á ólíkum tímum,  á ýmsum stöðum við ólíkar aðstæður. Þau trúarbrögð sem reist eru á grunni opinberana þeirra geta virst ólík, en þegar grannt er skoðað er kjarni þeirra einn og hinn sami. Kenningin að við ´eigum að gera öðrum eins og við viljum að þeir geri okkur´ er siðaregla sem áréttuð er í öllum stóru trúarbrögðunum óháð heimkynnum þeirra og upphafstíma. Hún hefur verið kölluð gullna reglan og gengur eins og rauður þráður gegnum kjarna trúarbragðanna. Hún vekur athygli á sameiginlegum andlegum boðskap þeirra en vegna samhengislausrar söguskoðunar á uppruna þeirra og eðli hefur mannkyninu ekki tekist að koma auga á einingarþáttinn.

Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu má leiða líkum að því að í helgum textum trúarbragðanna megi finna fleira sem bendir til þess sem sameinar  en það sem sundrar og gefur tilefni til átaka og leysi stríðsátök úr læðingi. Í því sambandi má benda á boðorðið „Þú skalt ekki mann deyða“. Það er skýrt og afdráttarlaust, engar undanþágur. Það virðist því í fljótu bragði að stríð sem stofnað er til í nafni trúarbragðanna byggi á misskilningi eða útúrsnúningi og eigi ekki rétt á sér.     

Böðvar Jónsson

Höfundur er lyfjafræðingur og býr á Akureyri

Nýjast