„Maður varð nú fertugur á árinu og er alltaf að öðlast meiri kraft“

Guðni Bragason tónlistarmaður og Mærukóngur 2016. Mynd: Heiðar Kristjáns
Guðni Bragason tónlistarmaður og Mærukóngur 2016. Mynd: Heiðar Kristjáns

Guðni Bragason er Húsvíkingum að góðu kunnur. Hann er tónlistarmaður og kennir jafnframt tónlist við Þingeyjarskóla en hann er með fleiri járn í eldinum, hann er framkvæmdastjóri Mærudaga 2016 og er rétt búinn að stofna viðburðafyrirtækið GB Viðburðir og stefnir á að gefa út sína fyrstu plötu á næstu vikum.

Guðni leit við á skrifstofu Skarps á dögunum og sagði frá því sem  hann er að fást við.

Það verða Mærudagar í ár

„Ég er þessa dagana að skipuleggja dagskrá Mærudaga, þannig að það sé eitthvað við að vera fyrir alla,“ segir hann og blaðamaður heggur strax eftir því að Guðni talar um Mærudaga í fleirtölu en hátíðin var skorin niður á síðasta ári og varð að Mærudegi. „Þetta varð óhjákvæmilega að einum degi í fyrra en við ætlum að hafa þetta Mærudaga í ár. Tvo bókaða dagskrárdaga og hefjum kannski hátíðina með einhverju léttu á fimmtudeginum,“ segir hann. Vinnan við skipulagninguna gengur vel að sögn Guðna sem hefur átt gott samstarf við m.a. veitingastaði í bænum. „Já, og þeir eru búnir að vera skipuleggja sína eigin dagskrá sjálfir. Mitt er að skipuleggja dagskrána á hafnarsvæðinu, tónlistarviðburði á sviðinu. Ég ætla að fara setja dagskrána í loftið hvað úr hverju en stærsta númerið er hljómsveitin Greifarnir. Þeir eru að fagna 30 ára afmæli sínu í ár,“ segir hann.

Plata á leiðinni

En það eru fleiri en Greifarnir að fagna stórafmæli á þessu ári, Guðni varð sjálfur fertugur í janúar og ætlar að fagna með því að gefa út plötu.

Hvenær kemur platan út og hvað heitir hún?

„Maður varð nú fertugur á árinu og er alltaf að öðlast meiri kraft, ég vildi tengja það saman og það kom út sem XL sem eru

rómverskar tölur fyrir 40, ætli það verði ekki titillinn. Það er ekki komin föst dagsetning á útgáfu en ég vonast til að það verði fyrir Mærudaga,“ segir Guðni.

„Þetta er svona hefðbundin poppmúsík, tónlistin er að mestu leyti eftir mig sjálfan en textarnir í höndum þeirra Jóhanns Kristins [Gunnarssonar] og Hálfvitanna Odds

Bjarna, bibba og Sævars,“ segir Guðni aðspurður um hvernig plata þetta sé. Hann spilar á öll hljóðfæri sjálfur á plötunni, nema hann fær  aðstoð með rafmagnsgítarleikinn, það er Pétur Valgarð Pétursson

sem sér um hann. „Maður er nú þeim eiginleikum gæddur að geta spilað á margt og þá kom ekkert annað til greina en að gera sem mest sjálfur,“ segir hann.

Ítarlegra viðtal við Guðna má nálgast í prentútgáfu Skarps.

- Skarpur, 23. júní.

 

Nýjast