Maður á sextugsaldri var stunginn í bakið með hnífi í fjölbýlishúsi við Hafnarstræti á Akureyri rétt fyrir kl. 18 í kvöld. Maðurinn komst út á götu alblóðugur og það voru vegfarendur sem hringdu til lögreglu að tilkynna um málið. Lögregla og sjúkrabíll fóru þá þegar á staðinn og var maðurinn fluttur á slysadeild.
Tveir karlar og ein kona höfðu verið saman inni í íbúð konunnar þegar körlunum varð sundurorða með þeim afleiðingum að
annar mannanna, sem er á fimmtugsaldri lagði til hins með hnífi. Hinn særði komst svo út á götu eins og áður greinir.
Karlmaðurinn sem var með hnífinn hefur verið handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglunnar og sömuleiðis konan, en allt var fólkið verulega
undir áhrifum áfengis.
Maðurinn sem stunginn var er á sjúkrahúsi en sár hans eru ekki talin lífshættuleg.
Beðið verður til morguns með að yfirheyra fólkið þegar ölvíman verður af því runnin.