MA styrkir Krabbameinsfélagið um tæpar 90 þúsund krónur
Í tilefni af bleikum október og söfnun til styrktar á rannsóknum á brjóstakrabbameini efndu nemendur Menntaskólans á Akureyri til söfnunar á bleikum degi. Skemmtinefnd skólafélagsins Hugins stóð fyrir þessum þemadegi og hvatti sem flesta til að mæta í bleiku þann 13. október síðastliðinn. Skólameistari hafði heitið á hvern nemanda sem mætti í bleiku og söfnuðust þannig 7.125 krónur, ofan á það bætast svo 12.791 króna í frjálsum framlögum frá nemendum og kennurum. Í tilkynningu frá nemendafélaginu segir einnig að félagið DerMA hafi á sama degi staðið fyrir því að selja bleikar derhúfur merktar MA sem fjáröflun fyrir Bleiku slaufuna. Derhúfusalan gekk einnig vel, 70 derhúfur seldust og söfnuðust þar 70.000 krónur. Í heildina eru þetta 89.916 krónur sem nemendur og starfsfólk Menntaskólans á Akureyri gefa Krabbameinsfélagi Íslands til styrktar Bleiku slaufunni, en söfnunin er sem fyrr segir til styrktar á rannsóknum á brjóstakrabbameini.