MA og VMA fá framlög úr ríkissjóði

Verkmenntaskólinn á Akureyri
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Framhaldsskólarnir sjö sem átt hafa í greiðsluerfiðleikum hafa nú fengið greidd framlög sem alls nemur tæpum 100 milljónum króna til að mæta vandanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Skólarnir sem um ræðir eru: Menntaskólinn á Akureyri, Kvennaskólinn í Reykjavík, Flensborgarskóli, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Fjölbrautaskóli Snæfellinga. Samanlagður rekstrarhalli þessara skóla nam 257 m.kr. um síðustu áramót.

„Framlögin taka mið af rekstraráætlun skólanna og eru greidd út þrátt fyrir uppsafnaða skuld við ríkissjóð. Framlögin nema alls tæpum 100 milljónum króna og voru ákveðin eftir að fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið höfðu farið yfir stöðu skóla sem glíma við greiðsluvanda,“ segir í tilkynningunni.

Í tilefni umfjöllunar um málefni framhaldsskóla útskýrir fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrirkomulag á greiðslu rekstrarfjár til ríkisaðila.

„Skipting fjárveitinga á mánuði byggir á rekstraráætlunum stofnana sem staðfestar hafa verið af hlutaðeigandi ráðuneytum. Stofnunum ber skylda til að laga rekstraráætlanir að fjárveitingu fjárlaga. Mismunur á viðskiptastöðu stofnana færist milli tímabila og hefur áhrif á upphæð útgreiðslna.

Hafi stofnanir verið reknar með halla verður viðskiptastaða þeirra neikvæð, þar sem laun eru alltaf greidd án tillits til stöðu við ríkissjóð. Þá safnast upp viðskiptaskuld sem kemur til frádráttar útgreiðslu fjárheimilda á hverjum tíma. Þetta getur leitt til þess að stofnanir fái ekki greitt rekstrarfé, líkt og hefur gerst með nokkra framhaldsskóla,“ segir m.a. í tilkynningunni.

Þá vill Fjármála- og efnahagsráðuneytið árétta að engin mistök hafi verið gerð hjá Fjársýslu ríkisins vegna greiðslna á rekstrarfé til framhaldsskólanna. „Fjársýslan þarf sérstaka heimild fjármála- og efnahagsráðuneytis til að greiða rekstrarfé umfram heimildir hvers tímabils og er fátítt að slíkar heimildir séu gefnar“.    /epe

Nýjast