MA fær 30 milljónir vegna breytinga á skólaári
Menntaskólinn á Akureyri fær 30 milljónir vegna fyrirhugaðra breytinga á skólaári skólans. Þetta er lagt til í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga, sem lagt er fyrir Alþingi í dag. Mbl.is greindi frá þessu
Skólaár MA hefur um árabil hafist í byrjun september og lokið um miðjan júní. Samkvæmt fyrirhuguðum breytingum myndi skólaárið hefjast um miðjan ágúst og vara fram til loka maí eins og hátturinn er á í öðrum framhaldsskólum. Skólinn hyggst þó áfram útskrifa nemendur 17. júní eins og venja hefur veri.
„Þessi breyting felur í sér styttingu sumarleyfis starfsmanna á því ári sem breytingin gengur í garð og er um að ræða 12 daga skerðingu. Viðbótarútgjöld vegna þessara breytinga eru áætluð 44 m.kr. og er hér lagt til að veittar verði 30 m.kr. vegna þeirra,“ segir í frumvarpinu.
Breytingunum er ætlað að liðka fyrir auknu samatarfi við aðra framhaldsskóla á Norðausturlandi.