Lýsir furðu og vonbrigðum með störf skólanefndar

Jóhannes Gunnar Bjarnason bæjarfulltrúi gerði athugasemdir við bókun skólanefndar á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun, þar sem fræðslustjóra var falið að vinna að sameiningu leikskólanna Flúða og Pálmholts. Í bókun lýsir Jóhannes yfir mikilli furðu og vonbrigðum með störf skólanefndar varðandi málefni leikskólanna.    

"Sú ákvörðun nefndarinnar að sameina leikskólana var tekin án vitneskju flestra bæjarfulltrúa og teljast það afar sérkennileg vinnubrögð að taka jafn afdrifaríka ákvörðun án nokkurs faglegs undirbúnings og pólitískrar umræðu. Þessi niðurstaða nefndarinnar er svar við ósk foreldra á leikskólanum Pálmholti um umbætur í salernismálum einnar deildar og verður málsmeðferð skólanefndar að teljast með ólíkindum. Sameining tveggja skóla er viðkvæmt ferli og verður aldrei framkvæmt nema með vandlegum og faglegum undirbúningi en ekki vegna innkomins erindis foreldra.  Ég skora á skólanefnd að endurskoða ákvörðun sína," segir í bókun Jóhannesar.
Í bókun, sem Elín Margrét Hallgrímsdóttir formaður skólanefndar lagði fram á fundi bæjarráðs, kemur fram að skólanefnd hafi í störfum sínum undanfarið leitað allra leiða til hagræðingar í rekstri skólanna án þess að það komi niður á gæðum skólastarfs.  Í því sambandi sé umrædd tillaga skólanefndar sett fram.

Nýjast