Lykilmenn hjá Þór/KA með lausa samninga
Margir leikmenn hjá Þór/KA eru með lausa samninga eftir nýafstaðið tímabil í Pepsi-deild kvenna og þar á meðal nokkrir lykilmenn liðsins. Rakel Hönnudóttir fyrirliði, Arna Sif Ásgrímsdóttir, systurnar Gígja Valgerður og Arna Benný Harðardætur og Silvía Rán Sigurðardóttir, eru allar samningslausar. Nói Björnsson, formaður leikmannaráðs kvenna hjá Þór, segist vonast til þess að halda þeim öllum hjá félaginu áfram og farið verði á fullt næstu daga í að semja við þær upp á nýtt.
Hins vegar er ólíklegt að erlendu leikmennirnir, þær Marisha Ledan Schumacher-Hodge, Manya Makoski, Diane Caldwell og Marie Perez Fernandez verði áfram með liðinu, en Nói bindur hins vegar vonir við að Mateja Zver snúi aftur. Það skýrist þó væntanlega ekki fyrr en með vorinu. Að sögn Nóa mun liðið styrkja sig frekar fyrir næsta sumar, fari svo að erlendu leikmennirnir snúi ekki til baka.
Við höfum sett þá stefnu að sækja í sterka leikmenn erlendis og munum halda þeirri línu áfram, segir Nói. Eftir Evrópuleiki Þórs/KA gegn þýska meistaraliðinu Turbine Potsdam í Evrópukeppninni, segir Nói að félögin hafi rætt um aukið samstarf sín á milli. Aðspurður um hvort von sé jafnvel á að leikmenn frá þýska stórliðinu verði í röðum Þórs/KA næsta sumar í Pepsi-deildinni segir hann: Ég segi nú ekki að það sé komið svo langt. Það er samt möguleiki sem við erum að velta fyrir okkur og þá erum við bara að tala um leikmenn sem eru ekki komnir að hjá aðalliðinu hjá þeim.