Lýðræðisdagurinn “Þú & ég & Akureyri” á laugardag

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri segir að á Lýðræðisdeginum á morgun, laugardag 12. apríl, verði velt upp fjölmörgum spurningum og miðast uppsetning þingsins við það að þátttaka almennings verði sem mest. Frummælendur úr hópi bæjarbúa hefja leikinn en að því loknu verða umræður og unnið að tillögugerð. Allar tillögur verða skráðar niður og birtar í Vikudegi í lok mánaðarins. "Þetta verða vonandi tillögur sem snerta okkur öll með einhverjum hætti, ekki bara bæjarkerfið sjálft sem slíkt. Við þurfum síðan að ræða þær og hvernig þær komast til framkvæmda," segir Sigrún Björk. Hún bendir á að innan sveitarfélagageirans hér á landi sé aukin áhersla lögð á íbúalýðræði og í haust muni Samband sveitarfélaga hvetja til lýðræðisviku þar sem gera á átak í þessum málum. Reynslan verði því dýrmæt.

Sigrún Björk vonar að sem mestur árangur náist á Lýðræðisdeginum. "Ég vona að við munum sjá hvernig bæjarbúar sjá fyrir sér Akureyri í framtíðinni, hvernig við ætlum að búa hér saman í framtíðinni," segir hún. Bæjarstjóri nefnir að í lok þessa mánaðar muni bærinn kynna stefnu sína í sorpmálum og hvernig sú stefna kalli á viðbrögð frá heimilunum. "Við þurfum að svara því hvernig við sjálf ætlum að standa að endurvinnslu og flokkun," segir hún. Á meðal þess sem einnig verður rætt á Lýðræðisdeginum er á hvern hátt draga megi úr bílaumferð í bænum, hvernig íbúarnir sjálfir geta lagt sitt af mörkum til að minnka svifryk og loks má nefna að varpað verður ljósi á það hvernig það sé að alast upp á Akureyri og eins að verða þar gamall.

"Við erum að fara af stað með ákveðna tilraun í þessu og ég vonast til þess að við getum haldið svona fundi eða málstofur árlega og rætt þau mál sem helst eru í umræðunni hverju sinni," segir Sigrún Björk. Lýðræðisdagurinn verður í Brekkuskóla og hefst kl. 13 undir yfirskriftinni "Þó & ég & Akureyri! Áætluð fundarlok eru um kl. 17. Nokkrar málstofur verða starfandi yfir daginn. Ágúst Þór Árnason hefur framsögu um íbúalýðræði, Pétur Halldórsson um mengun, umferð og lýðheilsu, Guðmundur Haukur Sigurðsson um göngu- og hjólreiðastíga, Matthildur Elmarsdóttir um lýðheilsu og skipulag, Hólmkell Hreinsson um hæglætisbæinn eða heimsborgarabraginn, Stella Árnadóttir fjallar um vistvernd í verki, Sigrún Sveinbjörnsdóttir ræðir um hvernig sé að eldast á Akureyri og Jan Eric Jessen ræðir um fjölskylduvænt samfélag.

Nýjast