Lýðræði snýst um samræður og samvinnu

Hlín Bolladóttir
Hlín Bolladóttir

Leið mín lá í verslun á dögunum þar sem ég þurfti að kaupa ákveðinn hlut.  Þegar heim var komið áttaði ég mig á að innihaldið vantaði í umbúðirnar og hafði ég í blindni treyst því að það væri á sínum stað.  Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að heiðra verslunina aftur með nærveru minni og benda á þetta en gat þó alls ekki gert kröfu um að mér yrði trúað, frekar en öðrum.  En ergilegt var þetta.  Þetta varð mér svolítið umhugsunarefni þar sem ég hugsa mikið um lýðræðið þessa dagana í tengslum við kosningar og sá í svipan líkingu með þessu tvennu.  Orðið og fyrirbærið lýðræði ber helst á góma í aðdraganda kosninga til þess að höfða til kjósenda og minna þá á að við eigum öll að hafa eitthvað um hlutina að segja og taka sameiginlegar ákvarðanir.  En virkar lýðræðið?  Einhver kann að hugsa sem svo að það felist lýðræði í því að kjósa sér fulltrúa til að sjá um málin og þurfa svo ekki að hafa áhyggjur meir á komandi kjörtímabili.  Þetta held ég að sé hvorki hollt fyrir kjósendur, þá sem eru kjörnir  eða samfélagið í heild.  Kosningaloforð eru svolítið eins og stolin vara í misdýrum umbúðum.  Það sem við ættum að lofa sjálfum okkur er að vera alltaf öll lýðræðislega virk og gæta þess að stjórnmálalegt umhverfi geri okkur það kleift.  Í nýlega endurskoðaðri Aðalnámskrá grunnskóla er krafan um að kenna ungu kynslóðinni lýðræði eitt af höfuðatriðum.  Það gerum við ekki nema það virki óumdeilanlega í heimi fullorðinna.  Lýðræði virkar ekki nema við eigum stöðugt samtal um sameiginlega samfélagslega ábyrgð og fáum, á öllum tímum, að láta skoðun okkar í ljósi.  Ef við höfum það ekki að leiðarljósi þá skapast sú hætta að gjá myndist á milli þeirra sem stjórna og samfélagsins.  Góður stjórnandi hlustar og virkjar þá sem hafa þekkingu og reynslu á hverju málefni fyrir sig.  Staðan í íslensku samfélagi er þannig í dag að það verður að leggja áherslu á málefni fólksins.  Það verður að styrkja skólakerfið og heibrigðiskerfið og það gerum við ekki öðruvísi en að tryggja að þeir sem vinna að þeim málefnum komist af.  Það verður að endurskoða lægstu laun og aðstæður þeirra sem fóru verst út úr efnahagslegu hruni á Íslandi.  Dögun er framboð sem býður nú fram í fyrsta sinn til sveitarstjórnarkosninga og er stjórnmálaafl sem setur sanngirni, réttlæti og lýðræði í forgang.

 Hlín Bolladóttir

Höfundur skipar 1.sæti Dögunar á Akureyri, stjórnmálasamtaka um sanngirni, réttlæti og lýðræði.      

Nýjast