Lundarskóli fyrsti heilsueflandi grunnskóli bæjarins

Lundarskóli fékk í morgun staðfestingu Lýðheilsustöðvar á því hann sé kominn í hóp heilsueflandi grunnskóla. Lundarskóli er þar með fyrsti grunnskólinn á Akureyri sem starfar sem slíkur en alls starfa 30 grunnskólar í anda þessarar hugmyndafræði. Af þessu tilefni var stutt samvera starfsmanna og nemenda á lóð Lundarskóla í morgun, þar sem Þorgerður Sigurðardóttir skólastýra flutti ávarp, auk þess skólinn fékk í hendur merki heilsueflandi grunnskóla.
Þorgerður sagði það æskilegt að grunnskólarnir taki þessa hugmyndafræði upp því báðir framhaldsskólarnir í bænum eru heilsueflandi auk þess sem allir leikskólarnir á Akureyri vinna á svipuðum nótum. Verkefnið felur í sér að á næstu 5- 6 árum mun skólinn innleiða þá átta lykilþætti sem hugmyndafræðin gengur út á. Þessir þættir eru: mataræði og næring, hreyfing og öryggi, nemendur, lífsleikni, geðrækt, heimili, starfsfólk og nærsamfélag. Í haust byrjaði Lundarskóli að innleiða mataræði og næringu auk tannheilsu. Næst er það hreyfing og öryggi sem unnið verður að. Í skólanum starfar stýrihópur um þetta verkefni og í honum eru Þórdís Rósa Sigurðardóttir skólahjúkrunarfræðingur, Þorgerður Sigurðardóttir skólatýra, Guðrún Brynja Sigurðardóttir og Birgitta Guðjónsdóttir kennarar, Ágúst Sigvaldason matráður og tveir nemendur, Jón Heiðar Sigurðsson og Ólöf Rún Pétursdóttir. Tengiliður stýrihópsins er í samvinnu við landlækni og Lýðheilsustöð um þetta verkefni. Af þessu tilefni hefur skólinn fengið í hendur merki heilsueflandi grunnskóla. Sigurbjörg Rún Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá skóladeild, afhenti fyrir hönd Gunnars Gíslasonar fræðslustjóra, þeim Jóni Heiðari og Ólöfu Rún, merkið formlega í morgun.