Það hrutu ýmis gullkorn af borðum í Reðasafninu á Húsavík í miklum gleðskap sem blásið var til þegar reður Páls Arasonar var þar afhjúpaður með viðhöfn. Þarna voru hnyttnir menn í kippum, auk Reðurstofustjórans sjálfs, Sigurðar Hjartarsonar, bróðir hans Reynir og frændi þeirra doktor Pétur Pétursson.
Einhver viðstaddra, líkast til Stera-Pétur, beindi þeirri spurningu til Reðurstofustjóra, hvort það væri ekki beinlínis siðferðileg skylda hans að ánafna safninu hreðjar sínar í fyllingu tímans. Áður en Sigurður náði að svara, greip Reynir boltann á lofti og sagði að vissulega væri hugmyndin góðra gjalda verð. “En ég tel annað safn á svæðinu mun eðlilegri geymslustað fyrir lók Sigurðar bróður, nefnilega Smámunasafnið í Eyjafirði”
“Hvaðan hefur þú eiginlega heimildir sem rökstyðja þessa tillögu, varstu að tala við konuna mína, bannsettur?” Spurði þá Sigurður að bragði. JS