Loksins leikur á Akureyrarvelli
Það má segja að KA leiki sinn fyrsta alvöru heimaleik í sumar í kvöld þegar liðið fær loksins að leika á Akureyrarvelli, en KA fær Gróttu í heimsókn kl. 18:15 í 1. deild karla í knattspyrnu. Eftir fjóra tapleiki í röð í deildinni er KA komið ansi nálægt fallbaráttunni og leikurinn í dag er algjör lykilleikur fyrir þá gulklæddu að snúa blaðinu við. KA situr nú í 10. sæti deildarinnar með sjö stig, þremur stigum minna en Grótta sem hefur tíu stig í sjöunda sæti. Grótta hefur aðeins tapað einum leik af sjö í sumar en fjórum sinnum hefur liðið gert jafntefli.
„Grótta er með fínt lið, eru vel skipulagðir og verða mjög erfiðir viðureignar. Við erum að fara að mæta liði sem er verðugur mótherji,” segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA, en nánar er rætt við hann í nýjasta tölublaði Vikudags. Þess má geta að frítt verður á leikinn í kvöld vegna framkvæmda við stúkuna á Akureyrarvelli sem enn standa yfir.