Lokaorðið - ,,Það er siðlaust að vera verjandi svona glæpamanns"

Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið i blaðinu s.l fimmtudag
Hreiðar Eiriksson átti lokaorðið i blaðinu s.l fimmtudag

Ég er oft spurður um það hvort ég mundi taka að mér að vera verjandi kynferðisbrotamanns, barnaníðings eða hryðjuverkamanns sem hefði drýgt hroðaleg níðingsverk. Ég svara undantekningalaust játandi og margir verða undrandi og jafnvel hneykslaðir á svarinu. Afstaða mín stafar ekki aðeins af þeirri staðreynd að á mér hvílir lagaskylda til að gera þetta ef dómari skipar mig til þess eða lögregla tilnefnir mig. Um það hef ég ekki val. Þetta er bæði lagaleg og siðferðisleg skylda mín. Ég hef líka orðið var við að lögreglumenn og saksóknarar hafa í sumum tilvikum tilhneigingu til að amast sakamálaverjendum, halda þeim utan við málin og reyna að komast hjá því að fara að lögum sem skylda þá til að afhenda verjendum afrit af málsskjölum og upplýsa þá um gang rannsókna. Aðfarir af þessu tagi benda til viðhorfa um að verjandinn sé andstæðingur þeirra og að menn samsami hann sakborningi. Að verjandinn sé í rauninni bandamaður eða samsærismaður með glæpamönnum. Slíkar hugmyndir eru hættulegar réttaröryggi borgaranna.

Ellefti maðurinn.

Mig langar tíl að rifja upp söguna um "Ellefta manninn". Þannig var að vestur í Bandaríkjunum var starfrækt 11 manna herforingjaráð sem hafði það hlutverk að taka ákvörðun um hernaðaraðgerðir sem mögulegt var eða talið nauðsynlegt að grípa til. Slíkar ákvarðanir eru stórar og afdrifaríkar og þess vegna var ákveðið að hafa oddatölu herforingja í ráðinu svo tryggt væri að meirihluti væri fyrir þeim hernaðaraðgerðum sem ákveðnar voru. Eitt sinn háttaði svo til að allir hershöfðingjarnir voru einróma um augljósa þörf og ávinning af tiltekinni hernaðaraðgerð og að mannfall yrði minniháttar eða ekkert. Aðgerðin var framkvæmd og reyndist hafa skelfilegar afleiðingar, mannfall og kostnað. Rótargreining leiddi í ljós að einróma ákvarðandi eru líklegastar til að vera misráðnar og illa ígrundaðar. Við þessu var brugðist með því að nota aðverð sem kölluð er "Ellefti maðurinn". Hún felst í því að þegar allir eru einum rómi, koma menn saman og draga númer úr hatti. Sá sem fær töluna 11 fær hlutverk "Ellefta mannsins". Hans eina hlutverk er að fara í harða andstöðu við hina einróma afstöðu, finna og taka saman allar mögulegar upplýsingar og rökstuðning fyrir því að áformin séu misráðin og ekki væri ráðlegt að ráðast í hernaðaraðgerðina sem um ræðir.

Sameiginleg sannleiksleit lögreglu og verjanda.

Það má segja að hlutverk verjanda í sakamálarannsóknum og meðferð þeirra fyrir dómi sé hlutverk "Ellefta mannsins". Hans hlutverk er að gagnrýna af einurð það sem fulltrúar meirihlutans eru orðnir sammála um að sé hið rétta og finna alla mögulega vankanta á því. Með þessu móti verða rannsóknir vandaðri, niðurstöður þeirra traustari og réttaröryggi meira. Þetta leiðir til þess að líklegra er að sannleikurinn verði leiddur í ljós og það er tilgangur refsivörslukerfis í réttarríki. Komi menn í veg fyrir að verjandi geti unnið störf sín eins og lög mæla fyrir um verða þeir þess valdandi að rannsókn verður óvönduð og niðurstaða hennar verður ótraust. Þá aukast að sama skapi líkur á því að menn verði dæmdir til refsingar fyrir brot sem þeir hafa ekki framið.

 

Nýjast